fimmtudagur, 17. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Á kúrekaslóðum vestra

21. desember 2011 kl. 12:35

Á kúrekaslóðum vestra

Eiðfaxi birtir nokkrar valdar greinar úr blöðum undanfarinna ára yfir jólin. Lesendur geta því lagst í lestur á fjölbreyttum greinum er snerta á sögu, ræktun og þjálfun hestakynsins okkar. Við hefjum leikinn á þessari fróðlegu grein Þorgeirs Guðlaugssonar úr 9. tbl. Eiðfaxa 2009 um íslenska hestinn í Amerískri grund, en fáir vita það kannski að hann var kominn til Vesturheims á síðari hluta 19. aldar.

Góðar stundir.

 
 

Á kúrekaslóðum vestra

Íslenski hesturinn var kominn til Ameríku í kringum 1870
 
Ekki er oft getið um íslenska hesta í amerískum bókum og blöðum fyrr en á seinni hluta 19. aldar. Það var helst að minnst væri á íslensk hross í frásögum ferðalanga sem verið höfðu á Íslandi og er hestunum þá iðulega hrósað fyrir dugnað og fótfimi. Um og eftir 1885 fara amerísk blöð í auknum mæli að flytja fréttir af íslenskum hestum þar í álfu og er líklegt að sala íslenskra hrossa til Bandaríkjanna hafi þá verið ný hafin. Þau hross komu frá Bretlandi og þá annað hvort fyrir tilstilli breskra hrossakaupmanna sem leituðu nýrra markaða eða Bandaríkjamanna sem á þessum árum fluttu inn töluvert af smáhestum og fágætum búpeningi frá Evrópu. Í skýrslu sem bandaríski aðalræðismaðurinn í Danmörku sendi yfirboðurum sínum í Washington um utanríkisverslun Íslendinga er eitt sinn stuttlega vikið að hrossasölunni til Bretlands og þess getið um leið að íslenskir hestar flytjist einnig til Bandaríkjanna. Nóg framboð var af íslenskum hestum á bresku hrossamörkuðunum á þeim tíma er þeir fóru að berast til Vesturheims; á árunum 1885-1890 voru rúmlega tíu þúsund íslensk hross flutt héðan til Bretlands. Þegar gluggað er í skipafréttir breskra blaða má líka stundum sjá þess getið að íslensk hross hafi verið flutt vestur um haf. Þannig segir í The Scotsman að um miðjan ágúst 1887 hafi Crystal, skip Arrow-skipafélagsins, haldið frá Dundee áleiðis til New York og meðal annars hafi farmur þess verið hundrað tonn af graníti og 52 íslenskir hestar.
 
Frekar smærri en stærri
 
Það lítur út fyrir að innflytjendur íslenskra hesta og annarra smáhesta frá Bretlandi hafi aðallega verið búsettir í fylkjunum Pennsylvaníu, Ohio og Iowa. Í þessum fylkjum var líka mikil kolavinnsla og því ekki útilokað að íslenskir hestar hafi eitthvað verið notaðir í bandarískum námum þó aldrei hafi það verið í eins miklum mæli og á Bretlandi. Í auglýsingum hrossakaupmanna frá þessum tíma eru íslenskir hestar aðallega boðnir til kaups sem reiðhestar handa börnum og unglingum og til þess að draga léttikerrur. Ef marka má fréttafjölda dagblaðanna má ætla að útbreiðsla íslenska hestsins hafi verið mest í Iowa og aðliggjandi fylkjum. Í Iowa var líka einn helsta ræktanda íslenskra hesta að finna, kaftein J. Murray Hoag, sem bjó í Maquoketa, smábæ í austurhluta fylkisins. Hann átti yfir 100 hross á búi sínu, flest af Hjaltlandseyjakyni, og var hann á meðal sýnenda hrossa á heimssýningunni í New Orleans árið 1885. Hestar úr ræktun Hoag kafteins virðast hafa borist vítt um Bandaríkin og stundum láta staðar- og héraðsblöð þess getið. Þannig greinir blaðið Las Vegas Daily Optic í Nýju-Mexíkó frá því í ágúst 1889 að til bæjarins hafi nýverið borist fallegur íslenskur hestur. Eigandi hans, kafteinn Clancy, hafi keypt hestinn frá Iowa en þar sé ræktanda slíkra gripa að finna. Annar mikilvirkur ræktandi íslenskra hesta á þessum árum var dr. O.C. Jackson í Jamaica á Long Island í New York fylki. Í viðtali sem tekið var við hann af blaðamanni The Rural New Yorker árið 1892 kemur fram að á búi hans séu 65 hross; Hjaltlandseyjahestar, velskir smáhestar og svo íslenskir. Um ræktun sína segir dr. Jackson:
 
„Ég stunda bæði hreinræktun og blendingsræktun, það fer allt eftir markmiðinu hverju sinni. Íslensku hestarnir eru frekar stórir. Ég blanda þeim því saman við velsku hestana til að gera útlit þeirra fínlegra og smækka þá aðeins.“
 
Eins og þarna kemur fram virðast sumir viljað hafa íslenska hestinn frekar smærri en stærri. Einnig er athyglisvert hve mörg íslensku hrossanna sem getið er um í Ameríku á þessum tíma voru skjótt að lit. Í auglýsingu frá Piper bræðrum í Corning í Iowa árið 1910 bjóða þeir til undaneldis íslenska stóðhestinn Don Pedro og fullyrða að hann gefi aðeins skjótt afkvæmi. Þá býður Lee Wilson, sömuleiðis í Iowa, 12 vetra jarpskjóttan íslenskan stóðhest til sölu árið 1916. 
 
Bandarísk búfjárrit eru fáorð um íslenska hesta þar í landi framan af og er þess ekki getið að þá sé að finna í Bandaríkjunum fyrr en í uppsláttarritinu Cyclopedia of American Agriculture, sem út kom árið 1909. 
 
Ekki er að sjá að íslenskir aðilar hafi á þessum tíma haslað sér völl á amerískum hrossamarkaði. Í verslunarskýrslum er ekki getið um beina hrossasölu frá Íslandi til Vesturheims fyrr en árið 1917. Í október það ár fóru átta hestar með Gullfossi til New York en hestarnir voru í eigu Sláturfélags Suðurlands. Í fréttaklausu um þetta segir Morgunblaðið að Eimskipafélagið hafi boðist til að flytja hrossin ókeypis en hér sé um tilraunasendingu að ræða og vonist menn til að markaður kynni að vera fyrir hesta frá Íslandi vestra. Ekkert framhald varð þó á hrossasölu þangað og voru hross frá Íslandi ekki flutt beint til Bandaríkjanna á ný fyrr en eftir miðja 20. öld. 
 
Hestur Reeves í Richmond
 
Ekki er nákvæmlega vitað hvenær fyrsti hesturinn barst beint frá Íslandi vestur um haf en líklega hefur það verið laust eftir 1880. Í frétt sem upphaflega birtist í dagblaðinu Chicago Herald árið 1889 segir að mektarmaður nokkur í Richmond í Indíanafylki eigi hest sem virðist hafa tekið upp undarlegt mataræði. Grunur leiki á að hesturinn hafi lagt sér kjúklinga til munns og jafnvel nýfædda kettlinga. Í fréttinni segir ennfremur:
 
„Hestur þessi var fluttur frá Íslandi en þar eru öll hross af svipaðri stærð og hann. Þetta er vel skapaður hestur, með fallegan móleitan feld, ljós á fax og tagl og hinn ágætasti til reiðar og aksturs. Hesturinn var fluttur hingað til lands af hérlendum góðborgara sem ferðast hefur mikið um Ísland, talar málið og er menntaður í bókmenntum landsins.“
 
Maðurinn sem hér um ræðir var Arthur Middleton Reeves, menntaður í norrænum fræðum við Cornell háskólann í Íþöku og á sinni tíð einn mesti kunnáttumaður í íslenskum fornritum. Arthur þessi var lærisveinn Íslandsvinarins kunna, Daniels Willard Fiske, og fylgdi honum til Íslands sumarið 1879. Þeir Fiske ferðuðust á hestum vítt og breitt um landið og sigldu að því loknu gervalla ströndina. Arthur hélt dagbók um ferðina og skrifaði einnig löng sendibréf heim til Ameríku þar sem hann segir frá því helsta sem fyrir augu bar á þessum framandi slóðum. Í skrifum sínum er Arthur fullur aðdáunar á íslenska hestinum; hann sé fótviss með afbrigðum, hafi nánast mannsvit og mikla hlaupagleði. 
 
Arthur Reeves kom aðeins í þetta eina skipti til Íslands en þrátt fyrir það helgaði hann íslenskri tungu og íslenskum bókmenntum líf sitt það sem eftir var. Hann dvaldi langdvölum í Berlín, Lundúnum og í Kaupmannahöfn þar sem hann rannsakaði íslensk fornrit og lagði grunninn að fágætu safni íslenskra rita. Þess á milli sigldi hann vestur til Ameríku til að sýsla með eigur sínar en Arthur erfði miklar lendur og fé eftir föður sinn sem var vellauðugur bankamaður. Sú auðlegð gerði honum kleift að ráðast í það verk sem haldið hefur minningu Reeves lengst á lofti; útgáfu glæsilegs ritverks um landafundi norrænna manna í Vesturheimi. Þá sneri hann yfir á ensku skáldsögunni „Piltur og stúlka” eftir Jón Thoroddsen og vann að enskri þýðingu á Laxdælu þegar hann fórst í lestarslysi vestur í Indíana árið 1891, þá aðeins 34 ára að aldri. 
 
Sirkushestur
 
Töluverðan frama virðast íslensk hross hafa hlotið í fjölleikahúsum og sirkusum vestra og er ein elsta heimild um íslenska hesta í Ameríku tengd þeim. Í blaði sem gefið var út í Bangor í Mainefylki árið 1872 segir að á meðal atriða í Howe sirkusnum, sem þangað var væntanlegur, séu íslenskir hestar. Seth B. Howe stofnaði sirkus þennan um miðja 19. öld og ferðaðist hann nokkur ár um Bandaríkin. Árið 1857 fór sirkusinn í sýningarferð til Englands er varði í ein sjö ár. Þegar Howe kom aftur til Bandaríkjanna árið 1864 er hugsanlegt að hann hafi haft með sér íslenska hesta frá Englandi. Á þessum árum höfðu flestir sirkusar stóra og skrautlega hljómsveitarvagna sem dregnir voru um götur borga í skrúðgöngu þar sem vakin var athygli á því sem sirkusinn hafði upp á að bjóða. Vagnar þessir voru oftast dregnir af litlum hestum og má vel vera að það hafi líka verið hlutverk íslensku hestanna. Íslenskir hestar voru einnig á meðal atriða sem sirkus Sunbræðra bauð upp á en sirkus þessi ferðaðist vítt og breitt um Bandaríkin kringum aldamótin 1900 og voru hestaatriði jafnan fastir liðir á dagskránni. Þá voru líka íslenskir hestar á meðal atriða hjá The Great Floto Shows sem ferðaðist um Bandaríkin á árunum 1902-1905 en alls hafði sirkus þessi tæplega 300 hross á sínum snærum. Árið 1896 greina fjölmörg blöð í Bandaríkjunum frá því að í smábænum Canandaigua í New York fylki hafi fæðst hestfolald sem margir telji minnsta hest í heimi. Mun móðirin hafa verið óvenju smávaxin íslensk hryssa í eigu fjölleikahúss Walters L. Main sem þar var í sýningarferð. Folaldið, sem nefnt var eftir bænum þar sem það fæddist, var ekki nema 28 sm á hæð og vó fjögur kíló. Íslenskir hestar voru líka algeng sjón á fylkishátíðum, eða hinum svokölluðu State Fairs, víðsvegar um Bandaríkin. Á New York State Fair í Syracuse árið 1905 vakti sérstaka athygli blaðanna að á meðal þátttakenda í hestaíþróttum var kunn ensk hestakona, Vera Morris að nafni. Hún skráði fjóra hesta til keppni og var einn þeirra íslenskur og kallaðist sá Killkool. Í fréttum af Iowa State Fair árið 1910 er þess getið að veitt voru verðlaun í sértökum flokki fyrir íslenska hesta og komu fyrstu verðlaun í hlut hests í eigu Pearl McDonald. Þá segir í úrslitum frá hinni árlegu bændahátíð í Westminster í Massachusetts árið 1922 - en hátíðin fór þá fram í 44. skipti - að íslenskur hestur í eigu Paul Percy hafi hlotið fyrstu verðlaun í flokki smáhesta. Stundum gerðist það að stjörnur skemmtanaiðnaðarins létu heillast af íslenskum hestum. Þannig segja bandarísk blöð frá því í slúðurdálkum sínum árið 1906 að revíuleikkonan fræga, Eva Tanguay, hafi keypt íslenskan hest þegar leikflokkur hennar var á ferð í borginni Huntington í Iowa. Mun hesturinn, sem kallaðist Beauty, hafa verið sendur ásamt fallegri ábreiðu og fullum aktygjum sem gjöf til lítillar frænku leikkonunnar er bjó í borginni Holyoke í Massachusetts. Greina blöðin jafnframt frá því að leikkonan hafi greitt 150 dali fyrir gripinn. Ólíkt því sem var á Bretlandi virðast íslenskir vekringar ekki hafa verið mikið notaðir á veðreiðum vestra. Kemur það líklega til af því að í Bandaríkjunum var ræktun skeiðhesta komin í fastar skorður áður en fyrstu íslensku hestarnir voru fluttir þangað og því næsta víst að Bandaríkjamenn hafi verið sjálfum sér nógir hvað vekringa varðaði. Þó er þess getið að á kappreiðum í Sheboygan í Wisconsin árið 1946 hafi íslenskur hestur hlaupið og var sá í eigu W. Gottfried í Elkhart Lake.
 
Á göngum Hvíta hússins?
 
Kunnastur allra hesta í Ameríku er sagðir voru íslenskir var án efa skjótti folinn Algonquin. Hann var í eigu Archie Roosevelt þegar Teddy faðir hans sat á forsetastóli. Árið 1903 hlaut hesturinn landsfrægð í Bandaríkjunum þegar sú saga spurðist út að hann hefði gengið um ganga í sjálfu Hvíta húsinu í Washington og verið fluttur á milli hæða í lyftu. Þannig vildi til að forsetasonurinn ungi lá í rúminu með mislinga og saknaði þess að sjá ekki folann sinn. Forsetafrúin tók ekki í mál að hleypa drengnum úr bólinu og þá brá hestasveinn Hvíta hússins á það ráð að fara með þann skjótta í vitjun til eigandans. Í fjölmörgum bandarískum blöðum er þess getið að Algonquin hafi verið íslenskur og í The Washington Times er meira að segja áréttað að hesturinn sé oft ranglega sagður af Hjaltlandseyjakyni. Þegar skoðaðar eru myndir af þessum litla skjótta hesti verður hins vegar að draga í efa að um hreinræktaðan íslenskan hest hafi verið að ræða enda mældist hann ekki nema rúmlega 80 sm á herðakamb. En sagan er skemmtileg engu að síður.
 
Ekki eru allar frásögur af íslenskum hestum í Ameríku þó til gamans. Þannig segir dagblaðið The San Fransisco Call frá hörmungaratburði sem átti sér stað í San Pedro í Kaliforníu í októberbyrjun 1895. Þá hafi tíu ára drengur, Eddie Miller að nafni, ætlað að teyma íslenskan hest sinn út í haga. Klárinn vildi annað og mun drengurinn því hafa bundið tauminn um úlnliðinn svo hann ætti auðveldara með að fá hestinn með sér. Vildi þá ekki betur til en svo að hesturinn fældist, tók mikinn kipp og dró drenginn af stað. Hann náði ekki að losa um tauminn og dróst með hestinum tæpan kílómetra áður en mönnum tókst að stöðva skelfda skepnuna - en þá var Eddie litli Miller örendur.
 
Þeysa hér vestur úr bænum...
 
Á árunum 1870 til 1905 fluttu á milli 15 og 20 þúsund Íslendingar til Vesturheims. Liggur nærri að það hafi verið um fimmtungur af íbúafjölda landsins. Einhverjir hafa flutt af stakri ævintýraþrá en langflestir voru að flýja fátækt og örbirgð á Íslandi, sérstaklega í kjölfar Öskjugossins 1875. Flestir Íslendinganna settust að í Manitobafylki í Kanada en einnig margir í fylkjunum Norður-Dakota og Minnesota í Bandaríkjunum. Mjög ósennilegt er að vesturfararnir sjálfir hafi haft með sér íslenska hesta. Kjör þeirra, langt ferðalag og aðrar aðstæður, buðu einfaldlega ekki upp á slíkt. Hins vegar er mögulegt að einhverjir hafi fengið íslenska hesta út seinna meir, þegar hagurinn hafði vænkast, en það hafa þá verið algerar undantekningar. Í grein um íslenska hesta sem birtist í Lögbergi, einu af blöðum Íslendinga í Kanada, segir þetta árið 1912:
 
„Til skamms tíma hafði aðeins einn íslenzkur hestur komið til Canada, svo kunnugt sé. Það var gæðingur mikill sem Sigurður Christopherson flutti með sér af Íslandi fyrir nokkrum árum. Sá hestur þótti mesta metfé, bæði reiðhestur afburðargóður og keyrsluhestur.“
 
Tveimur árum áður greinir blaðið frá því að 30 íslenskir hestar hefi verið seldir á uppboði í Montreal, en þangað hafi hestarnir verið fluttir frá Skotlandi. Telur blaðið jafnframt að þetta sé fyrsti íslenski hrossahópurinn sem seldur hafi verið til Kanada. Eigandi hestanna var maður að nafni Thomas Maugham og árið 1912 auglýsir hann að fullur vagn af íslenskum hestum verði seldur á uppboði í Winnipeg. Í auglýsingunni segir að hestarnir komi beina leið frá Íslandi og er það athyglisvert þar sem þessa er ekki getið í íslenskum verslunarskýrslum. Fyrirtæki Thomasar þessa Maugham, T. & I. Maugham & Co Ltd í Newcastle, var um langt árabil helsti söluaðili íslenskra hrossa á Bretlandi og því líklegt að hestarnir í Kanada hafi fyrst haft viðdvöl þar. Flest hrossin á uppboðinu í Winnipeg voru seld nokkrum Íslendingum í borginni, en þeir sömu höfðu skömmu áður keypt nokkur íslensk hross sem auglýst voru til sölu af dagblaðinu Telegram. Voru þá 23 íslenskir hestar komnir í eigu Íslendinga í Winnipeg og átti A.S. Bardal flesta þeirra eða fjórtán. Segist tíðindamaður Lögbergs hafa séð flesta hestana og segir þá líta furðu vel út eftir svo langt ferðalag, sumir jafnvel spikfeitir. Þá segir blaðið að margir Íslendingar hafi saknað þess sárt að geta ekki riðið íslenskum hestum en það sé nú liðin tíð:
 
„Nú geta þeir veitt sér þá skemmtun sem efni hafa á og ástæður til. Ef menn vildu það, þá yrði nógu gaman næsta sumar t.a.m. að sjá landa hópa sig saman, fara í alíslenzka útreið og þeysa hér vestur úr bænum út sléttur á íslenzkum gæðingum.“
 
Höfundur þessara orða sá líka fyrir sér að útreiðar á íslenskum hestum gætu komist í tísku á meðal íbúa Winnipegborgar enda væri það alkunna með skemmtanir og skemmtanatæki að mest væri sóst eftir hinu sjaldgæfa. Íslendingar í Winnipeg hafa örugglega eitthvað stundað útreiðar og árið 1913 voru kappreiðar íslenskra hesta á meðal dagskrárliða á Íslendingadeginum sem fram fór 2. ágúst. Í Lögbergi segir að fimm hestar verði reyndir og eigi A.S Bardal þrjá þeirra en þeir J. Runólfsson og J.W. Thorgeirsson hina. Mun Bardal ætla að sitja einn gæðinga sinna sjálfur en Páll Björnsson og ungfrú Alla Bardal muni ríða hinum. Ekki hafa kappreiðarnar tekist sem skyldi og segir blaðið Heimskringla að þær hefðu mátt missa sig, hestarnir hafi verið bágbornir og engir hlaupagæðingar. Lögberg segir það eitt um kappreiðar Íslendingadagsins að þær hafi farið í handaskolum. Ekki er að sjá að efnt hafi verið til kappreiða á samkomum Íslendinga eftir þetta og er fátt um fréttir af íslenskum hestum í Winnipeg-blöðum næstu árin. Þó eru íslenskir reiðhestar auglýstir til sölu annað slagið, síðast haustið 1916 þegar athafnamaðurinn Árni Eggertsson bauð fala nokkra fallega, hrausta og góða hesta en síðan segir ekkert af íslenskum hestum í Vesturheimi fram yfir miðja öldina. Þó er ekki útilokað að hestarnir átta sem fóru beint frá Íslandi til New York í ókeypis flutningi Eimskipafélagsins árið 1917 hafi tengst Vestur-Íslendingum. Áðurgreindur Árni Eggertsson var þá fulltrúi Vestur-Íslendinga í stjórn Eimskipafélagsins og maðurinn sem fór með hestunum utan, Stefán Stefánsson, hafði vetursetu í Winnipeg eftir að út var komið. Greinir blaðið Veröld frá því að hann sé þar í erindum Sláturfélags Suðurlands en félagið var einmitt eigandi hestanna átta sem um ræðir.
 
Óljós afdrif
 
Ekki er gerlegt að áætla þann fjölda íslenskra hrossa sem eitt sinn var í Vesturheimi né segja nákvæmlega til um afdrif hrossanna. Eins og að framan greinir blönduðust íslensku hestarnir oft hrossum af öðrum kynjum og á þann máta hafa þeir eflaust horfið inn í hina miklu hrossamergð í Bandaríkjunum og Kanada. Eftir að Bandaríkjamenn voru sjálfir farnir að rækta íslensk hross hætti innflutningur frá Bretlandi og síðar meir, með tilkomu bílsins og vélvæðingar í sveitum, minnkaði þörf og eftirspurn eftir hestum almennt. Nú er varla nokkur maður til frásagnar um íslensku hestana í gamla tímanum en lengi fram eftir 20. öldinni var hægt að rekast á hestafólk sem ennþá mundi eftir þeim. Þannig átti dagblað nokkurt í Kansasfylki viðtal við kúrekann Gene Bowyer árið 1978, en hann var þá ennþá að snara kálfa og keppa í öðrum kúrekaþrautum, kominn á sjötugsaldurinn. Þar segir hann frá því að faðir hans hafi gefið sér íslenskan hest þegar hann var ungur drengur og bætir við að ekki heyrist mikið af því kyni lengur og að eftir því sem hann best viti væru fáir íslenskir hestar í landinu. 
 
Um langt árabil var líka hljótt um íslenska hestinn í Ameríku. Fyrstu hestarnir sem fluttir voru beint frá Íslandi vestur um haf eftir sendinguna 1917 fóru ekki þangað fyrr en árið 1955. Um var að ræða fjóra hesta í eigu Íslandsvinarins Richards Mark Watsons – þess sama er gaf Íslendingum Dýraspítalann í Víðidal - sem hafði hrossin til útreiða á búgarði sínum í Nicasio, rétt norðan við San Francisco í Kaliforníu. Koma hesta Watsons þangað markaði tímamót og er upphaf nútímasögu íslenska hestsins í Vesturheimi. Sú saga er um margt fróðleg - en bíður betri tíma.