mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

100 bjórkassar fyrir þjálni og þýðgengi

21. ágúst 2009 kl. 08:40

Bjórreið hefur verið stunduð á íslenskum hestum víða um heim í þeim tilgangi að sýna ókunnugum þjálni og þýðgengi þessa litla og vinalega hests. Knapar ríða þá með fulla krús af bjór í annarri hendi en tauminn í hinni og reyna að láta sem minnst skvettast úr krúsinni.

Á Töðugjöldum Rangæinga var hins vegar haldin grafalvarleg keppni í bjórreið. Fyrstu verðlaun hvorki meira né minna en 100 kassar af Egils Gull. Mikill áhugi var fyrir keppninni.

Knaparnir þurftu að leysa ýmsar þrautir, svo sem að ríða kring um kefli, krókaleiðir í gegn um hlið, og svo framvegis. Bjórreiðin var skemmtileg á að horfa og alls ekki auðveld þraut.

Ýmsir höfðu þó á orði að heppilegra hefði verið að hafa Egils malt og appelsín í verðlaun á fjölskylduhátíð. Og í krúsunum. Sigurvegari í bjórreiðinni var Kristján Jónsson.