föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

10 fyrir tölt og stökk

13. október 2016 kl. 13:00

Ljósvaki frá Valstrýtu hlaut 10,0 fyrir tölt og stökk.

Eiðfaxi heldur áfram yfirferð um þá hesta sem hlutu 10 fyrir einstaka eiginleika í kynbótadómi á árinu 2016.

 

Eiðfaxi fjallaði í gær um þá hesta sem hlutu 10 fyrir skeið á kynbótaárinu 2016. Nú verður tekin fyrir sá hestur sem hlaut 10 fyrir tölt. Það er þó hægt að slá því einnig saman við þann hest sem hlaut 10 fyrir stökk, því það er einn og sami hesturinn sá heitir Ljósvaki frá Valstrýtu.

Ljósvaki er fæddur árið 2010 og var því sex vetra gamall á síðastliðnu Landsmóti á Hólum þar sem hann hlaut sinn hæsta dóm og einkunninar 10 fyrir tölt og stökk.
Ljósvaki hlaut fyrir sköpulag 8,22 fyrir hæfileika 8,75 og aðaleinnkunina 8,54. Ljósvaki er undan Hákoni frá Ragnheiðarstöðum sem hlaut í sínum hæsta dómi 8,15 fyrir hæfileika , 7,7 fyrir sköpulag og aðaleinnkunina 7,97. Hákon er undan Hátíð frá Úlfsstöðum og Álfi frá Selfossi.
Hátíð frá Úlfsstöðum hlaut, eins og ljósvaki, einkunnina 10 fyrir tölt á skagfirskri grundu nánar tiltekið fimm vetra gömul á Landsmóti á Vindheimamelum árið 2006. Álf frá  Selfossi þarf vart að kynna fyrir hestamönnum farsæll kynbótahestur og hlaut hann heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti árið 2012. Móðir Ljósvaka er Skylda frá Hnjúkahlíð sýnd sjö vetra gömul, hlaut hún í sköpulagsdóm 8,05 fyrir hæfileika 7,83 og aðaleinkunnina 7,92. Skylda er undan Oddi frá Selfossi og Sylgju frá Akureyri.
Sylgja er skráð með 15 afkvæmi og hafa sjö þeirra komið til kynbótadóms. Meðaleinkunn þeirra er 7,807. Oddur frá Selfossi er orðinn einn af helstu ættfeðrum í Íslenskri hrossarækt og hlaut hann heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti 2002 á Vindheimamelum.
Auk Ljósvaka hafa einungis tvö hross hlotið 10 fyrir stökk en það var Hylling frá Nýjabæ sem fékk 10 fyrir stökk á Vindheimamelum árið 1982  og Nös frá Urriðavatni sem fékk 10 fyrir stökk árið 1977. 
Ljósvaki á skráð 15 afkvæmi fædd á árunum 2015 og 2016.
Sýnandi Ljósvaka var Árni Björn Pálsson en ræktandi sem og eigandi er Guðjón Árnason.