miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

10 fyrir hægt stökk og fet

14. október 2016 kl. 15:34

Nútíð frá Leysingjastöðum II

Nútíð frá Leysingjastöðum II hlaut 10 fyrir hægt stökk og Drottning frá Reykjavík 10 fyrir fet

Eiðfaxi fjallaði í gær um Ljósvaka frá Valstrýtu sem fékk 10 fyrir tölt og stökk. Nú er komið að umfjöllun um tvær hryssur sem hlutu 10 fyrir sitthvora grunngangtegundina þ.e.a.s. fet og hægt stökk.

Nútíð frá Leysingjastöðum II er fædd árið 2011 og var því fimm vetra í sumar. Hún hlaut sinn hæsta dóm á Landsmótinu á Hólum. Hún fékk fyrir sköpulag 8,43 og hæfileika 8,28 í aðaleinkunn 8,34. Fyrir hægt stökk hlaut hún einkunnina 10 einnig má nefna það að hún hlaut 9,5 fyrir hægt tölt og fegurð í reið. Gífurlega vel sköpuð og hæfileikarík klárhryssa. Faðir nútíðar er Sindri frá Leysingjastöðum II, hann kom aldrei til kynbótadóms en hefur skorað hátt bæði í gæðinga- og íþróttakeppni. Sindri er undan Stíganda frá Leysingjastöðum II og Heiðu frá sama stað. Móðir Nútíðar er Gæska frá Leysingjastöðum sem er undan Kórall frá Leysingjastöðum II og Dekkju frá sama stað. Það má því með sanni segja að Nútíð sé til marks um þá góðu ræktun sem stunduð er á Leysingjastöðum. Nútíð er ein fjögurra hrossa sem hlotið hafa einkunnina 10 fyrir hægt stökk. Önnur hross sem hafa hlotið þá einkunn eru Auður frá Lundum II, Óskadís frá Habichtswald og Tígull frá Kleiva. Sýnandi Nútíðar var Ísólfur Líndal Þórisson. Ræktandi er Hreinn Magnússon en eigandi Sindrastaðir ehf.

Drottning frá Reykjavík er fædd árið 2008 og var því 8 vetra í sumar þegar hún kom í fyrsta skipti til kynbótadóms og hlaut þá 10 fyrir fet. Drottning hlaut fyrir sköpulag 7,24 og hæfileika 7,93 í aðaleinkunn 7,65. Drottning er undan Erni frá Efri-Gegnihólum en hann hlaut í sínum hæsta kynbótadómi 8,04 fyrir sköpulag, 8,82 í hæfileika og aðaleinkunnina 8,51. Örn hefur m.a. einu sinni hlotið 9,5 fyrir fet í kynbótadómi og hefur gert það verulega gott í íþróttakeppni. Móðir Drottningar er Hátíð frá Króksstöðum en hún er undan Höldi frá Brún. Drottning er ein af sex hrossum sem hlotið hafa einkunnina 10 fyrir fet í kynbótadómi. Önnur hross sem hafa hlotið þá einkunn eru Erla frá Hofsstaðaseli, Gyðja frá Vindási, Heljar frá Stóra-Hofi, Hrafnkatla frá Leirubakka og Sokki frá Omø.
Einkunnarorð Drottningar fyrir fet eru taktgott, rösklegt og skrefmikið.
Fet er eiginleiki sem hestamenn eru að átta sig á að er ekki síður mikilvægur en aðrar gangtegundir. Það er ljóst að Drottning frá Reykjavík hefur því að geyma úrvalseiginleika sem ber að varðveita.
Sýnandi Drottningar var Hlynur Pálsson en hann er einnig annar af eigendunum.