miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ÍS-LANDSMÓT Á SVÍNAVATNI

29. febrúar 2012 kl. 09:50

Helga Árnadóttir keppir á hesti sínum Ás á Svínavatni 2009.

Meira en hálf milljón í peningaverðlaun

Ís-Landsmótið á Svínavatni í Húnaþingi verður haldið á laugardaginn. Eftir nokkru er að slægjast fyrir keppendur, því auk hefðbundinna verðlaunagripa eru í boði á sjötta hundrað þúsund í peningum: 100 þúsund krónur á efsta sæti í A flokki, B flokki og opnum flokki í tölti. 50 þúsund krónur á annað sætið og 25 þúsund á þriðja.

Ægir Sigurgeirsson, bóndi á Stekjjardal við Svínavatn og mótsstjóri, segir að ísinn á vatninu sé þykkur og traustur. Eina sem geti spillt fyrir sé veðrið, en verið sé að vinna í því, eins og þeir Húnvetningar taka til orða.

„Ísinn er sléttur og traustur. Það er á honum snjóföl sem gæti orðið að krapa ef rignir. En þá er bara að skafa brautirnar, sem er í sjálfu sér lítið mál,“ segir Ægir.

Skráningu lauk í gær og ráslistar verða birtir í dag eða á morgun. Eitthvað á annað hundrað skráningar bárust og á meðal keppenda eru nokkrir fremstu knapar og hestar af nær öllu landinu. Það eru hestamannafélögin Þytur og Neisti sem standa að mótinu. Sjá má allar upplýsingar um mótið á slóðinni: www.is-landsmot.is