sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verðmæti hrossabúa upp á 200 til 1000 milljónir

21. ágúst 2009 kl. 08:53

Hrossabúskapur er alvöru búgrein

Árið 1979 var spurning blaðamanna í hófapressunni sú hvort mögulegt væri að hafa tekjur af hrossum. Bjartsýnustu bændur, sem höfðu brennandi áhuga á hrossum en þorðu ekki að bregða hefðbundnum búskap, töldu að það væri hægt.

Það voru hins vegar fáir sem gengu út frá því sem vísu að hrossastúss væri vinnunnar virði. Síðan þá hefur hestamennskunni vaxið fiskur um hrygg.

Í landinu er nú fjöldi hrossaræktarbúa og tamningastöðva, sem standa ekki ver að vígi en bú í hefðbundnum búskap. Má þar nefna Auðsholtshjáleigu, Blesastaði, Fet, Oddhól, Skeiðvelli, Hafsteinsstaði, Flugumýri II, Syðri-Gegnishóla og Votmúla.

Hrossabú í góðum rekstri skapar auðveldlega tvö til sex ársverk.

Verðmæti hrossabúa verður alltaf afstætt. Veldur þar miklu hver á heldur. Verðmætin geta auðveldlega hrunið í höndum nýs eiganda. Lítil og meðalstór hrossabú með viðundandi húsakost og landrými, og nokkrar góðar hryssur, má auðveldlega meta á 100 - 200 milljónir króna.

Stærstu og glæsilegustu hrossabúin, með nýlegu hesthúsi, reiðhöll og hringvelli. Og sem hafa náð áþreifanlegum árangri í ræktun keppnis- og kynbótahrossa, verða vart metin á minna en 500 til 1000 milljónir. Þetta eru kannski ótrúlegar tölur.

En ef við tökum dæmi um góða kynbótahryssu, sem hefur skilað tveimur frábærum stóðhestum, og til viðbótar hátt dæmdum dætrum og keppnishestum, þá er hún þegar búin að skila tugum milljóna í búið. Sá sem á fleiri en tvær eða þrjár slíkar er í góðum málum.

Reiðhöll kostar 40 til 80 milljónir. Og svona má lengi telja. Auðveldlega má telja upp tugi hrossabúa í landinu sem teljast til vel rekinna fyrirtækja og eru með viðunandi og þaðan af betri vinnuaðstöðu. Til tamninga og kennslu.

Í næsta blaði um Hesta og hestamenn verður gerð úttekt á helstu hrossbúum landsins.