miðvikudagur, 24. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vangaveltur á sunnudegi-

12. september 2010 kl. 15:03

Vangaveltur á sunnudegi-

Þótt dagskrá hestamanna sé um það bil lokið á þessu ári..

allavega hvað varðar mótahald og sýningar, hafa þeir um nóg  að hugsa og umræðuefni er nægjanlegt er þeir hittast á förnum vegi. Þessi þrjú mál eru meðal þess sem er í kastljósinu:

Kynbótadómar
Þessi málaflokkur bíður uppá endalausa umræðu, enda af nógu að taka. Eitt af því sem er í umræðunni er hið breytta vægi og þröskuldar sem teknir voru í notkun á þessu ári. Sitt sýnist hverjum um þetta mál og er næsta víst að fagráð muni þurfa að fara vel yfir það á næstu fundum sínum. Sjöunda tölublað Eiðfaxa er í smíðum en í því mun verða ítarleg úttekt á þessu máli og viðtöl við nokkra í framlínunni um það.
Ólík menntun og menntunarkröfur til alþjóðlegra kynbótadómara FEIF eftir löndum er einnig athyglisvert mál sem einnig mun fanga einhverja athygli í umræðunni í haust.

Hóstapestin
Engar stórfréttir hafa verið í loftinu nýlega varðandi þetta mál og hvílir það misþungt á fólki. Að sjálfsögæu er það persónuleg upplifun hvers og eins sem stýrir því hvernig honum eða henni líður en ótrúlega margar og ólíkar útfærslur hefur undirritaður heyrt af. Þetta mál er þó ekki langt frá neinum sem á hross og er viss kvíði í loftinu varðandi framhaldið.
Nú hefur verið boðað til tveggja opinna funda um hóstapestina þar sem staðan og framtíðarhorfur verða rædd.
Það eru samtökin, LH, FHB og FT sem standa fyrir þessum fundum og mun Sigríður Björnsdóttir dýralæknir fara fyrir umræðum. Fyrri fundurinn verður haldin í ÍSÍ húsinu í Laugardal þriðjudaginn 14.sept. kl.17:30. Seinni fundurinn verður haldin í Þingborg, fyrir austan Selfoss, þriðjudaginn 14.sept. kl.20:30.

Uppskeruhátíð 2010
Margir velta fyrir sér hvernig staðið verði að þessari hátíð okkar hestamanna þetta árið.  Félag hrossabænda hefur dregið sig frá samstarfi við LH á þessum vettvangi og mun ekki taka þátt í henni og er rétt að komi fram að sú ákvörðun var ekki tekin vegna einhverra leiðinda, heldur vegna þess að FHB telur annan vettvang betur til þess fallinn að verðlauna ræktunina en það er hin árlega ráðstefna hrossaræktarinnar sem ár hvert er haldin í Bændahöllinni. Hugmyndir eru um að gera þá ráðstefnu en veglegri og er einhverra frekari breytinga að vænta á dagskrá hennar. Þetta er í mótun hjá FHB.
Viðurkenningin „kynbótaknapi ársins verður þó áfram eins og áður á hendi LH.

Trausti Þór Guðmundsson