sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Úrtökur fyrir Landsmót

17. maí 2010 kl. 11:30

Úrtökur fyrir Landsmót

,,Fólk þarf að sýna þessu ástandi skilning, framkvæmdaraðilar, mótshaldarar og allir þeir sem koma að mótahaldi gera sitt besta hverju sinni í þessari óvenjulegu stöðu sem nú er,“ segir Sigurður Ævarsson mótsstjóri Landsmóts í viðtal á vef Landsmóts.

Það styttist óðum í úrtökur hestamannafélaga fyrir Landsmót hestamanna og eru margir að velta vöngum yfir því hvernig best sé að standa að úrtökum þar sem hestakvefpestin umrædda mun setja strik í reikninginn hjá mörgum. Einn möguleikinn er að hafa tvær úrtökur.

Sigurður var fenginn til að svara nokkrum spurningum sem snúa að úrtökum fyrir komandi Landsmót á Vindheimamelum.

Hvernig er best að standa að úrtökum?,,Sjálfsagt verður eitthvað um frestanir á fyrirhuguðum úrtökum,þannig að  ég mæli með því að hestamannafélög haldi tvær úrtökur með 10 daga til  tveggja vikna millibili. Úrtökurnar þurfa ekki endilega að fara fram um helgi,  hægt að halda þær  seinnipart á virkum dögum.“

Þurfa hestamannafélögin að sækja um það sérstaklega að hafa tvær úrtökur? ,,Nei, það þarf ekki að sækja sérstaklega um að hafa tvær úrtökur. En það þarf að vera á hreinu að hestar sem stefna á að mæta einungis í seinni úrtöku þurfa að skrá sig líka í þá fyrri þó svo að þeir geti ekki mætt þá. Þetta er eitt mót þó svo að umferðirnar  séu tvær.“

Þurfa sömu dómarar að dæma báðar úrtökurnar?
,,Nei, það þurfa ekki sömu dómararnir að dæma báðar úrtökurnar en það er þó æskilegra að það séu þeir sömu sem dæma báðar umferðirnar hjá sama félaginu.“

Hvað með úrslit í þessum úrtökum?
,,Eins og staðan er núna þá mæli ég eindregið með því að úrtökurnar hafi forgang og mótanefndir í hestamannafélögum sleppi úrslitum, bjóði bara upp á tvær úrtökur en ekki heilt mót með úrslitum. Þannig er verið að koma til móts við þau hross sem eru jafnvel að komast í gang eftir veikindi og eru kannski ekki komin í toppþjálfun aftur. Eins mæli ég með því að félögin hafi fimm dómara í stað þriggja, sérstaklega þar sem ekki eru riðin úrslit.“

Hvernig verður með tíma í skeiði og einkunnir í tölti inn á Landsmót?,, Já, það hafa ekki verið nein mót í maí þannig að staðan er sérstök hvað það varðar. Á síðustu stórmótum hafa bestu tímarnir í skeiði gilt inn á mót og efstu 30 einkunnir í tölti. Tíminn verður að leiða í ljós hvort hægt verði að nota þær aðferðir eða hvort verði að leita nýrra leiða.“

 Ég vil svo koma því til allra hesteigenda og knapa að láta hestinn njóta vafans í öllum tilvikum, að koma ekki með veikan hest í úrtöku“, segir Sigurður Ævarsson að lokum.