mánudagur, 20. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppskeruhátíðarfréttir Fáks

7. desember 2010 kl. 15:34

Uppskeruhátíðarfréttir Fáks

Fullt út úr dyrum var á Uppskeruhátíð Fáks sem var haldin laugardagskvöldið 27 nóv...

þar sem nefndarfólk í Fáki ásamt sjálfboðaliðum og mökum áttu frábæra kvöldstund. Veisluborðið svignaði undan margrétta kræsingum sem Jón Helgi kokkur undirbjó ásamt aðstoðarkokkum.  Ómar Ragnarsson kom og skemmti af sinni alkunnu snilld, brokkaði hann létt um salinn, sagði gamanmál, söng og trallaði. Hátíðin var undir öruggri stjórn Sigurbjörns Bárðarsonar veislustjóra og ekki þótti honum leiðinlegt þegar hann bað viðstadda að heiðra hið síunga sextuga afmælisbarn, Ragnar Hinriksson, en í leiðinni rifjaði Diddi upp efnilegan feril Ragga sem ballerínu hjá Þjóðleikshúsinu.  Já sumum er margt til lista lagt og valið hefur eflaust verið erfitt hjá Ragga á sínum tíma, hvort hann myndi leggja fyrir sig atvinnumennsku í ballet eða hestamennsku. Þó Raggi hafi ekki rifjað þessa gömlu taka upp á hátíðinni, þrátt fyrir mikla hvatningu, þá hefði nú verið gaman að sjá hann í ballettátillum og sokkabuxum taka nokkur svífandi spor og stökk, en við eigum það bara inni hjá honum.  En á meðan verðum við bara að njóta þess að horfa á hann á hestbaki. Gospelkór Árbæjarkirkju kom og lyfti þakinu með flottum og hressum söng. Til gamans má geta þess að það voru tíu fyrrverandi formenn Fáks á hátíðinni og nær það tímabil sem þeir voru við völd aftur um tæp 40 ár.
Að venju var afreksfólk heiðrað en innan raða Fáks er margir af fremstu knöpum landsins og margir sem banka á dyrnar og vilja komast í þennan hóp og hvetjum við þá til dáða en verðlaunuðum þá sem náðu góðum árangri á keppnisbrautinni í ár.