mánudagur, 22. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tölthryssan Díva -

27. ágúst 2010 kl. 16:00

Tölthryssan Díva -

Í íþróttakeppni í dag er það orðið sjaldgæft að ung hross komi fram á sjónarsviðið og standi þrautþjálfuðum fullorðnum hestum ekkert að baki.

Það gerðist í  töltkeppninni í dag  en Díva frá Álfhólum vakti sérstaka athygli margra og hafnaði að lokum í 6 sæti með 7,70 í einkunn. Díva sem er aðeins sex vetra gömul á eðlilega ekki langan keppnisferil að baki þó keppti hún í einni töltkeppni í fyrra aðeins 5 vetra þar sem hún var í B úrslitum á FM á Kaldármelum og hlaut þar í forkeppni 7,37. Sá er þetta skrifar man ekki eftir að 5 vetra hross hafi náð þeirri einkunn í tölti.
 
Díva er sem fyrr segir frá Álfhólum hún er undan Dimmu frá Miðfelli og Arði frá Brautarholti, hún fór í kynbótadóm í vor og hlaut þar meðal annars 9,5 fyrir tölt og fyrir vilja og geðslag.  Knapi hennar og þjálfari er Sara Ástþórsdóttir og Eiðfaxamenn hittu hana að máli á mótinu og spurðu hana nánar um þessa athyglisverðu hryssu.
 
„Hún var tamin svolítið á fjórða vetur“ segir Sara og heldur áfram „ það kom strax í ljós að upplagið í henni á tölti var óvenjulegt, hún var alltaf tilbúin og bara eins og byssa þegar hún keyrði sig upp á ferð á tölti“.
„Geðslagið í henni er einstakt og ekki mikið þurft að hafa fyrir henni, núna var hún búin að standa frá því í apríl þar til í byrjun júlí, var svolítið þung af stað en er að komast í form“. Þegar Sara er spurð um framhaldið hvort það verði ekki spennandi að halda áfram með hana í nokkur ár svara hún : „ jú jú en hún á samt að fara í ræktun hjá okkur, planið var náttúrulega landsmót í ár en úr því sem komið er verður hún geld og keppt á henni næsta sumar, en svo fer hún í folaldseignir“ en svo bætir hún við „ég veit samt að ég á eftir að ríða bestu sýninguna á henni því hún á töluvert inni“.
 
Eiðfaxi óskar Söru til hamingju með hryssuna og við eins og aðrir eigum eftir að njóta þess að horfa á Dívu á keppnisvellinum, að minnsta kosti í eitt ár í viðbót.....