þriðjudagur, 21. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þýskur fréttamiðill fjallar um LM 2011

21. desember 2010 kl. 15:18

Þýskur fréttamiðill fjallar um LM 2011

Þýski fréttavefurinn Isibless.de gerði viðtal við Sigurð Ævarsson um Landsmót 2011...

Landsmótið er neyðarúrræði, biður um skilning erlendis
Eins og allir vita var Landsmóti 2010 frestað á afmælisári þess, vegna hóstapestarinnar sem geisaði í hrossastofninum á Íslandi, og ákveðið að halda það á HM-ári 2011 í staðinn. Þýski vefmiðillinn isibless spjallaði við mótsstjóra Landsmóts, Sigurð Ævarsson um þessa umdeildu ákvörðun.
isibless: Það að tímasetja Landsmót á næsta ári svo stuttu áður en HM verður haldið, hefur sætt gagnrýni og ekki bara frá skipuleggjendum og mótshöldurum í Austurríki. Hverjar eru helstu ástæður þessarar tímasetningar  og hvernig svararðu gagnrýninni?
Siggi Ævars: Í fyrsta lagi höfum við allan tímann verið meðvituð um þessa gagnrýni og við skiljum hana og virðum. Vitaskuld er þessi tímasetning heldur ekki sú besta fyrir okkur, því án efa munu margir erlendir knapar og ræktendur ekki koma til Íslands á Landsmót á næsta ári, þar sem þeir verða heima að undirbúa sig fyrir HM. Á sama tíma bið ég um skilning  á því að þessi ákvörðun er tekin með hagsmuni hrossaræktenda, eigenda, þjálfara og knapa á Íslandi í huga. Þennan skilning finnur maður ekki í Evrópu eins og er, sem er miður því við höfum átt hræðilegt ár í hestamennskunni á Íslandi 2010.
Íslenski hesturinn er svo stór hluti okkar lífs að margt fólk fór mjög illa út úr hóstapestinni í hrossunum, því öll vinna við hesta lá niðri og enginn þénaði neitt á meðan. Þetta voru allt aðstæður sem eru mjög óvenjulegar.
Við erum mjög meðvituð um allt það sem gestgjafar HM 2011 eru að byggja upp og gera en við erum einfaldlega skyldug til þess að veita okkar fólki á Íslandi möguleikann á því að kynna sín hross og afkvæmi þeirra og opna markaðsglugga sem var hreinlega ekki til staðar hér í ár.
isibless: Munum við sjá fleiri hross á Landsmóti á næsta ári en vanalega, þar sem hrossin voru veik í ár, eða verður valið inná mótið með hefðbundnu sniði?
Siggi Ævars: Úrtökur verða með sama móti og áður og þess vegna tel ég að fjöldi hrossa verði svipaður og áður. Við viljum jú sjá bestu hrossin og þau verða auðvitað að fá tækifæri til að sanna sig fyrir mótið.
Það að aðeins þrjú ár verði milli Landsmóta er mjög jákvætt fyrir landsmótshrossin frá því 2008. Það er jú mikilvægt fyrir ræktendur á Íslandi að hrossin geti hækkað dóma sína milli móta.
Hefði maður t.d. sýnt 4v hross á LM 2008, væri það í fyrsta lagi í lok 2009 fullþjálfað. Það hross hefði átt að sýna aftur 6v2010 og þá í öryggi síns aldursflokks. Ef við myndum bíða til 2012, hefðu þessi hross verið orðin það gömul að þau væru að keppa við fullorðin kynbótahross, þ.e. þau myndi vanta  þetta millistig. Þeim viljum við gefa möguleikann á að sanna sig enn frekar. Síðan kemst rútína Landsmóta strax í fyrra horf, þ.e. með Landsmóti 2012 í Reykjavík.
isibless: Fyrir okkur frá Evrópu sem gjarnan komum á Landsmót, er sú blanda sem mótið býður upp á það athyglisverðasta, þ.d. kynbótahross, gæðingakeppni og íþróttakeppni. Þessa blöndu er ekki oft boðið upp á í Evrópu...
Siggi Ævars: ... og við vonum auðvitað að það fyrirkomulag muni koma sterkar inn í Evrópu í framtíðinni. Ég veit að t.d. á Basselthof eða í Zachow á Skeiðmeistaramótunum hefur þetta fyrirkomulag verið prófað með góðum árangri. Það væri gaman að sjá þetta prófað víðar, því í enda dags erum við aðdáendur íslenska hestsins og njótum þess að horfa á hann.
Það er auðvitað rétt hjá þér, að hvergi finnur maður um 1.000 góð hross samankomin til að keppa í hinum ýmsu greinum, nema á Landsmóti. Þetta viljum við varðveita og hlúa að, enda sjáum við auk atvinnumannanna, mjög efnileg og hæfileikarík börn og unglinga og mér er alltaf sérstök ánægja að fylgjast með þeim verða að stjörnum framtíðarinnar.
Ég býð alla vini íslenska hestsins velkomna til Íslands á Landsmót. Hvort sem maður vill vera í sumarhúsi eða taka tjaldið sitt með, munu allir finna eitthvað við sitt hæfi held ég. Á þarnæsta Landsmóti 2012 í Reykjavík verður auðvitað fjölbreyttari gisting í boði en á Vindheimamelum 2011 munu allir finna sér stað.
Upplýsingar um gistingu, miðasölu o.fl. er að finna á heimasíðu mótsins, www.landsmot.is.
isibless: Á liðnum mótum hefur dómurum erlendis frá verið boðið að dæma. Verður það líka þannig 2011?
Siggi Ævars: Ég held það, því þessir dómarar koma með mikilvæga reynslu úr sínu heimalandi og geta öðlast nýja reynslu á Íslandi sem þeir taka með sér heim. Á síðustu árum hafa komið hingað t.d. Bent Rune Skulevold frá Noregi, Eva Petersen frá Þýskalandi og Johannes Hoyos frá Austurríki. Þessi dómaraskipti milli Íslands og Evrópu eru af hinu góða og mikilvæg að mínu mati.
Þess vegna vil ég árétta það að það er leitt að Landsmót og HM muni liggja svo þétt saman á mótaskránni næsta sumar. Ákvörðunin að halda Landsmót á þessum tíma var ekki auðveld og eins og ég hef sagt: Við vonum auðvitað að margir gestir sæki Landsmót heim, en á sama tíma vitum við að það verður erfiðleikum bundið fyrir vini okkar erlendis með tilliti til HM. Ef önnur og betri lausn fyrir alla hefði fundist hefðum við farið þá leið!
isibless: Kærar þakkir fyrir spjallið og gangi ykkur vel með Landsmótið næsta sumar. Allir þeir sem hefðu viljað fara á Landsmót en komast ekki vil ég segja: isibless mun flytja fréttir í máli og myndum frá Vindheimamelum allan tímann.

Hægt er að sjá viðtalið á Þýsku HÉR