sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þurfum að aðlaga ferðirnar aðstæðum

26. júní 2010 kl. 12:14

Þurfum að aðlaga ferðirnar aðstæðum

Þó það sé nánast eins og að bera í bakkafullan lækinn að ræða um hestapestina lék Eiðfax þó forvitni á að vita hvaða áhrif pestin væri að hafa á hestaleigurnar en fram að þessu hefur mest verið rætt um frestun á Landsmóti og tap vegna þess í sambandi við flensuna.
Hróðmar Bjarnason hjá Eldhestum tjáði okkur að þeir hefðu orðið fyrst varir við flensu hjá Eldhestum þegar þeir fóru að taka móti hrossum annars staðar frá í byrjun júní til að nota í lengri sumarferðir.  Eldhestar eru með um það bil 240 hross á sínum vegum um þessar mundir og eru nú sýnileg veikindi í um það bil 25 hrossum.
En sem komið er hafa þeir nóg af heilbrigðum hrossum til að geta getað haldið úti ferðum, en þeir eru mjög á varðbergi gangvart veikinni og hafa aðstöðu til að taka frá þau hross sem veikjast og einangra  í sér hólfi. Þá eru þeir með jörð fyrir heilbrigð hross sem koma úr ferðum á landi þar sem engin hross hafa verið og blanda þeim ekki saman við önnur.
Vegna ástandsins hafa þeir þurft að aðlaga ferðir að þessum breyttu aðstæðum, til dæmis með því að hætta við Sprengisandsferðirnar, bæði vegna þess að þær eru langar og erfiðar, og ekki síður að fjarlægðin er mikil svo erfitt er að bregðast við ef eitthvað kemur uppá varðandi heilbrigði hrossanna.
Þegar Hróðmar er spurður um afleiðingar af minni ferðamannastraumi í kjölfar eldgossins segir hann að vissulega hafi þeir fundið fyrir því í minni bókunum í apríl og maí, en þeir hafi verið heppnir að því leyti að bókanir voru komnar mjög vel á stað hjá þeim sem gosið skall á.
Þeir hafi einnig brugðist við með því að bjóða viðskiptavinum endurgreiðslu á sinni ferð ef til þess kæmi að þeir kæmust ekki til landsins og komið þannig í veg fyrir afbókanir.
Að öðru leyti vildi hann meina að framtíðin væri björt í hestaferðunum og menn þyrftu bara að vinna sig út úr þeim tímabundna vanda sem þessi áföll hefðu skapað. -hg