sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tamningamaður og hobbýbóndi

17. mars 2010 kl. 16:11

Tamningamaður og hobbýbóndi

Erlingur Ingvarsson tamningamaður í Torfunesi, er einn þeirra knáu knapa sem taka þátt í Meistaradeild Norðurlands, KS-deildinni. Í kvöld er þriðja mótið haldið í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki og nú er keppt í fimmgangi. Óhætt er að segja að mótið verði sterkt, því hestar eins og Kylja frá Hólum, Þóra frá Prestbæ, Úði frá Húsavík, Óðinn frá Hvítárholti, Háttur frá Þúfum, Kraftur frá Efri-Þverá og Blær frá Torfunesi.

Erlingur er að eigin sögn, tamningamaður og hobbý-fjárbóndi að Sandhaugum í Bárðardal.

Í kvöld mætir hann til leiks með stóðhestinn kunna Blæ frá Torfunesi, sem er nú meira þekktur fyrir afrek sín í gæðingakeppni en íþróttakeppni. Hann sigraði m.a. A-flokkinn á Fjórðungsmóti Austurlands árið 2007.

Hvernig hefur gengið í deildinni hingað til?
Það hefur nú ekki gengið alveg eins vel og ég hugsaði mér. Ég fór með hryssu sem ég á sjálfur og er úr minni ræktun, í fjórganginn og töltið. Ég hafði nú ekki miklar væntingar varðandi fjórganginn en ég hefði viljað gera betur í töltinu. Hryssan (Gerpla frá Hlíðarenda) var bara ekki tilbúin en okkur gekk síðan vel saman á Mývatni um liðna helgi.

Er KS-deildin skemmtilegt keppnisfyrirkomulag?
Já, mjög svo. Það eru færri mót hjá okkur en í Meistaradeild VÍS en ég hef mjög gaman að þessu. Reyndar hefði ég viljað gera enn meira úr deildinni hérna fyrir norðan, þá meina ég að ég hefði viljað hafa eina sterka deild og veglegri heldur en að hafa annars vegar KS-deildina og hins vegar KEA-mótaröðina. Þá væri þess vegna hægt að skipta mótunum milli reiðhallanna á Sauðárkróki og á Akureyri. En maður þurfti að velja á milli deildanna, og ég valdi KS-deildina, mér finnst hún sterkari.

Eru hrossin í formi á þessum árstíma fyrir átök sem svona keppni krefst?
Menn verða einmitt að passa sig hvað hrossin varðar, það er til mikils að vinna, peningaverðlaun og þess háttar. Kapp er best með forsjá og menn verða að fara varlega með hestana og halda svolítið aftur af sér með kröfur til þeirra á þessum árstíma. Hins vegar held ég að ég hafi byrjað of seint með hana Gerplu mína í vetur, hún var ekki tilbúin í þau verkefni sem ég ætlaði henni. Þetta er allt spurning um útsjónarsemi og reynslu.

En Blær er í formi eða hvað?
Já, hann er í toppformi. Þetta er mikill gæðingur, með góðar og rúmar gangtegundir, þó stökkið sé kannski sú sísta í íþróttakeppni. Svona hesti er samt alltaf erfiðara að ríða í litlu rými, betra ef hægt er að láta hann valsa. Hann er þó alltaf að verða teknískari og teknískari fyrir íþróttakeppni og ég prófaði hann í Top Reiter höllinni á Akureyri um daginn og hann virkaði þrælvel. Ég keppti á honum í fyrsta skipti á Mývatni um síðustu helgi, við urðum í 2.sæti í stóðhestakeppninni. Ég verð nú að viðurkenna að það er nú smá taugatitringur fyrir keppnina í kvöld en hann nýtist bara vonandi til góða. Markmiðið er klárlega að komast beint í A-úrslit.

Hvað með greinarnar sem eftir eru?
Í skeiðið kem ég með Blæ eða Möttul son hans. Þeir eru báðir mjög fljótir og með 9.0 fyrir skeið í kynbótadómi. Ég þarf að leggja á þá með GPS-tæki í vasanum og mæla hraðann!
Smalinn er skemmtileg keppnisgrein. Áhorfendur hafa gaman að henni, því það er hraði og spenna sem fylgir henni. Sigur í þeirri grein er nú mikið til spurning um heppni og auðvitað keppni við tímann. Ég held ég hafi aldrei náð jafn háum púlsi og í smalanum í fyrra. Það eina sem ég get sett út á smalann er að oft vill verða svolítill tætingur í mönnum, sem gerir þetta ekki eins faglegt og aðrar greinar.

Eiðfaxi.is þakkar Erlingi fyrir spjallið og óskar honum góðs gengis í kvöld.