sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stærsta reiðhöll landsins vígð

Jens Einarsson
26. maí 2009 kl. 09:23

Stærsta reiðhöll landsins, Top Reiter-höllin, var vígð í síðasta mánuði

Stærsta reiðhöll landsins, Top Reiter-höllin, var vígð á Akureyri 18. apríl síðastliðinn. Höllin er ein af mörgum sem risið hafa síðan styrkir voru veittir úr reiðhallarsjóði Guðna Ágústssonar. Styrkirnir eru þó yfirleitt aðeins lítill hluti af byggingarkostnaði og það hefur kostað hestamannafélögin blóð, svita og tár að fjármagna restina. Þær eru ótaldar vinnustundirnar sem félagar í Létti hafa lagt fram í sjálfboðavinnu til að láta þennan draum sinn rætast.

Styrkur frá Akureyrarbæ 140 milljónir

Eyfirðingar tóku þann pólinn í hæðina að ráðast í verkið af myndarskap og fengu til þess verulegan stuðning frá Akureyrarbæ. Reiðhöllin er svokallað límtréshús, með burðarsperrum úr límtré og hvítum yleiningum í klæðningu. Hún er 80x37 metrar að flatarmáli, þar af er reiðgólfið 70x27 metrar. Áhorfendastúkan tekur um 800 manns í sæti.

Á efri hæð verður 300 fermetra félagsheimili og veitingasalur, en sú aðstaða er ekki fullfrágengin. Að sögn Sigurðar J. Sigurðssonar er heildarbyggingarkostnaður kominn yfir 200 milljónir ef sjálfboðavinna Léttisfélaga og önnur framlög eru reiknuð með.

Í beinum peningum talið stendur kostnaðurinn í 180 milljónum króna. Styrkur úr reiðhallasjóði var 26 milljónir, styrkur frá KEA 2,5 milljónir og framlag Akureyrarbæjar rúmar 140 milljónir. Feðgarnir Herbert „Kóki“ Ólason og Ásgeir Herbertsson, eigendur Top Reiter, gáfu Létti hljóðkerfi í reiðhöllina, og auk þess tíu hnakka og beisli. Þeir voru sæmdir gull- og silfurmerki Léttis auk þess sem reiðhöllin ber nafn Top Reiter næstu tvö árin.