miðvikudagur, 24. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stóðhestablaðið 2010 í prentun-

19. mars 2010 kl. 09:51

Stóðhestablaðið 2010 í prentun-

Stóðhestablað Eiðfaxa 2010 er nú í prentun hjá Odda og mun líta dagsins ljós um miðja næstu viku, sem er nokkuð fyrr en venja er. Blaðið er yfirgripsmikil handbók um þá stóðhesta sem í boði verða fyrir hrossaræktendur um allt land í sumar.

Blaðið er í stærra broti en áður og meira í það lagt. Stóðhestunum í blaðinu er raðað þannig að fyrstir koma heiðursverðlaunahestar, síðan þeir sem hlotið hafa 1.verðlaun fyrir afkvæmi og svo allir hestar með fullnaðardóm og að lokum ódæmdir framtíðarstóðhestar.

Eins og í fyrra, munu allir stóðhestarnir í blaðinu verða á Stóðhestavef Eiðfaxa, þar sem skoða má fleiri myndir af þeim, jafnvel myndbönd og ýmsar aukaupplýsingar. Þetta er aukin þjónusta við stóðhestaeigendur og enginn aukakostnaður í þessu falinn.

Í blaðinu eru síðan hefðbundnar upplýsingar um kynbótasýningar, nýjasta kynbótamatið, hvaða hestar eru með hæstu kynbótamatseinkunn fyrir hvert dómsatriði, reglur um kynbótasýningar og fleira af því tagi. Síðast en ekki síst er skemmtilegt viðtal við það þau Þormar og Sigurlínu og fjölskyldu sem kenna hrossin sín við Strandarhjáleigu en þau hlutu einmitt fremstu viðurkenningu hrossaræktenda á Íslandi síðasta haust þegar þau tóku við verðlaunum fyrir Ræktunarbú ársins 2009.

Stóðhestablaðið verður að sjálfsögðu sendur til áskrifenda sinna um leið og það kemur úr prentsmiðjunni en einnig verður blaðið til sölu í hestavöruverslunum, bensínstöðvur N1 og Olís og víðar.

Eiðfaxi er stoltur af nýja blaðinu og vonar að það eigi eftir að verða hrossaræktendum góð og nytsamleg handbók við spekúleringar og val á stóðhesti til undaneldis.