sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stian Pedersen - viðtal við heimsmeistarann

28. september 2009 kl. 12:41

Stian Pedersen - viðtal við heimsmeistarann

Þeir sem héldu að dagar Stian Pedersen á toppnum væru taldir eftir að hann seldi Jarl frá Miðkrika, verða sannarlega að taka þá þanka til baka. Á heimsmeistaramótinu í Sviss kom hann, sá og sigraði öllum að óvörum, m.a. sjálfum sér. En það er greinilegt að hann veit hvað hann syngur og hvað þarf til að verða heimsmeistari. Hann varð heimsmeistari í fimmgangi á Tindi frá Varmalæk. Hér á eftir fer viðtal við Stian, sem samstarfsaðili Eiðfaxa, Isibless, tók við hann og spurði út í sigurinn, leiðina á heimsmeistaramótið og hvað framtíðin ber í skauti sér.

Til hamingju Stian, með frábæran árangur á HM. Heimsmeistaratitill í fimmgangi. Hvernig tilfinning var það að vera aftur á toppnum með nýjan hest, Tind frá Varmalæk, eftir frábæra sigra ykkar Jarls á HM 2007?

„Þakka þér kærlega fyrir. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn, þá varð ég svolítið hissa. Auðvitað var þó að þessu stefnt þegar við keyptum hestinn í nóvember í fyrra. Það voru hins vegar svo margir frábærir knapar og hestar í fimmganginum í Sviss og baráttan var hörð um efstu sætin. Ég gerði mér grein fyrir að ég yrði að taka á honum stóra mínum til að vera með í þeirri baráttu. Að lokum varð ég auðvitað mjög ánægður að það skyldi takast og mjög skemmtilegt að vinna aftur heimsmeistaratitil.“

01:    Stian Pedersen [WC] [NO] - Tindur frá Varmalæk    7.69
         TÖLT 8.0 - 8.0 - 7.5 - 8.0 - 8.5 = 8.00
         TROT 7.5 - 7.0 - 6.5 - 7.5 - 7.0 = 7.17
         WALK 7.5 - 7.0 - 7.5 - 7.5 - 8.0 = 7.50
         CANT 7.5 - 7.0 - 6.5 - 7.0 - 7.5 = 7.17
         PACE 7.5 - 8.5 - 7.5 - 8.0 - 8.5 = 8.00

Hvenær sástu Tind fyrst?

„Það var reyndar á myndbandi sem Benedikt Líndal gerði af honum 5v gömlum og síðan sá ég hann næst á Landsmótinu 2008 á Hellu, þar sem hann var í A-úrslitunum í A-flokki með Þórarinn Eymundsson sem knapa. Hann virkaði mjög efnilegur og öruggur á öllum gangi.

Stuttu seinna fékk ég tækifæri til þess að prófa hann og ekki aðeins voru allar gangtegundir heilar og góðar, heldur var hann svo mikið í lagi í höfðinu. Þetta fannst mér frábært og þessir hlutir eru góður grunnur til að byggja meira ofan á. Að auki eru Benni, Tóti, Siggi Sig og fólkið á Varmalæk, þjálfarar og hestafólk í fremstu röð. Enda var hesturinn vel þjálfaður og undirbúinn þegar ég prófaði hann síðasta haust og tók þá ákvörðun að þetta yrði minn næsti keppnishestur.“

 

Tindur fór síðan til Noregs í byrjun desember í fyrra. Að hverju einbeittir þú þér í þjálfun hans síðasta vetur í undirbúningi ykkar fyrir HM?

„Nú, í fyrsta lagi var komin ný gangtegund að þjálfa, sem Jarl hafði ekki, og ég var vanur að keppa á honum í fjórgangi og tölti. Tindur hafði allar gangtegundirnar fimm, sem var skemmtilegur bónus fyrir mig. Auðvitað hef ég alltaf riðið alhliða hestum líka, en fólk þekkir mig mest á því að ríða Jarli. Það var örugglega meiri breyting fyrir fólk í kringum mig en mig sjálfan.

Þegar ég er að þjálfa, hef ég að leiðarljósi að hlusta vel á merki frá hestinum til að trufla hann eins lítið og hægt er. Okkur hættir til að trufla hestana okkar með því að krefja þá of mikið of fljótt. Þessu vildi ég komast hjá með Tind og við tókum okkur því góðan tíma til að kynnast. Í byrjun vetrar prófaði ég alls konar búnað á honum, mél og þess háttar og fann út hvað hentaði honum best. Einnig fórum við smám saman að þróa upphitunarferlið okkar og í hvaða röð væri best að sýna gangtegundirnar í keppni.

Þessari undirbúningsvinnu var í raun ekki lokið þegar við komum til Sviss, ef ég á að segja alveg eins og er. Það var því nóg að gera hjá okkur alla mótsdagana. Ég hafði auðvitað ekki þekkt Tind lengi, hvað keppnir varðar, en ég vissi að við gátum þó alltaf treyst hvorum öðrum.

Völlurinn í Brunnadern í Sviss var mjög góður en þó harðari en þeir vellir sem við höfðum keppt saman á. Þannig að sérstaklega fyrir töltið, var járningin ekki alveg fullkomin. En þegar við vorum komnir í A-úrslitin, vorum við búnir að venjast vellinum og finna út hvernig við ættum að gera hlutina og þannig, sem betur fer, gekk allt upp og við unnum gullið.

En áðan töluðum við um þjálfun og undirbúning og mig langar að bæta við: Að mínu mati einblína margir of mikið á vöðva og líkamlegt atgervi hestsins. Vissulega er mikilvægt að huga að þessu, en ég legg áherslu á að þjálfa huga og sál hestsins fyrst, vöðvauppbygging og gott ástand fylgir í kjölfarið.“

Hvernig fannst þér að sjá Jarl á keppnisvellinum, ganga svona vel eins og raun bar vitni með Luciu Koch frá Austurríki?

„Ég er mjög stoltur af Luciu. Hún vann virkilega vel og af skynsemi með Jarl og ég samgleðst henni innilega yfir góðu gengi þeirra á HM. Það staðfestir enn og aftur hversu góður hestur hann er, að ná svona frábærum árangri, annars vegar með mér og hins vegar með Luciu. Ég er mjög ánægður hversu vel þeim gekk og ég vöknaði um augun þegar ég horfði á sýninguna þeirra, sem var frábær. Ef eitthvað gengur ekki sem skyldi, verð ég yfirleitt ekki mjög tilfinninganæmur, reyni frekar að leysa vandann. En þegar eitthvað gleðilegt gerist, þá skammast ég mín ekkert fyrir að fella eitt tár eða tvö.

Ég vil auðvitað senda Lenu Trappe og Vaski vom Lindenhof hamingjuóskir, þau voru hreint út sagt frábær!“

Tölum nú aðeins um Gait Academy. Þetta er verkefni sem þú og Bent Rune Skulevold, þjálfari og dómari, eruð að vinna að saman.

„Já, Gait Academy er hugðarefni okkar Bent Rune og snýst um grunninn að Íslandshestamennskunni. Okkur langar að ná næsta stóra áfanganum í menntun knapa og hesta og hjálpa fólki á öllum stigum reiðmennskunnar. Þetta eru engin „hókus pókus fræði“, heldur erum við að kenna góða og heilbrigða gamaldags reiðmennsku í bland við hefðbundnar aðferðir, sem að mestu leyti eru upprunnar í Þýskalandi. Einnig vil ég bæta við, að við leggjum ávallt áherslu á velferð hestsins í hvaða samhengi sem er.

Við leggjum mikið uppúr sálfræði hests og knapa og við viljum heilan og opinn huga fyrst og síðan þjálfa líkamlegt atgervi. Við erum ekkert hræddir við að kenna mjög reyndum knöpum grunnatriði, því oft kemur það þeim á óvart að það eru glufur í grunnþekkingunni.

Fólk gæti sagt að eftir tvo síðustu heimsmeistaramótstitla, væri ég með „svarta beltið“ í keppnishestamennskunni. En þvert á móti, þá reyni ég stöðugt að minna mig á grunnatriði þjálfunar og reiðmennsku, til að geta haldið áfram á ljúfum nótum með hestana mína. Það er mjög mikilvægt.

Nú í haust munum við Bent Rune, halda námskeið fyrir ungmenni og einnig fyrir atvinnumenn í þjálfunarhópum, í Þýskalandi, Danmörku og Noregi. Við höfum góða reynslu af þessari vinnu, sérstaklega á Wiesenhof í Þýskalandi. Þar var mikill áhugi fyrir okkar þjálfunarferli og við vorum mjög spenntir að prófa okkur áfram þar, enda höfðum við til að byrja með aðeins verið í Skandinavíu. Við vorum mjög ánægðir með verkefnið á Wiesenhof og það gerir vinnuna okkar mjög skemmtilega að hitta fyrir jafn jákvætt fólk og þar.

Við höfum verið beðnir að vera með námskeið á Íslandi og í Bandaríkjunum og við verðum að sjá hvað verður úr því. Það er gaman að fá svona góð viðbrögð við GaitAcademy og við erum vissir um að verkefnið mun vaxa á komandi árum en við erum aðeins tveir einstaklingar sem stöndum í þessu og tökum eitt skref í einu.

Maður gæti einnig hugsað sér að hægt verði að bjóða upp á sérstök námsekið fyrir leiðbeinendur og reiðkennara sem myndu tileinka sér okkar hugmyndafræði.

Vonandi gengur þetta vel og von okkar er að Gait Academy verði einhvern tímann þekkt um allan Íslandshestaheiminn.“

Eftir vel heppnaða ferð á heimsmeistaramótið í Sviss, hvað er næst á dagskrá hjá Stian Pedersen?

„Já, það er nú ekki mikill tími fyrir frí, nánast enginn. Í september munu eigendur Tinds opna nýjan búgarð og við ætlum að hafa litla sýningu þar. Tindur mun svo fá verðskuldaða pásu en eftir hana munum við halda þjálfun áfram og undirbúa okkur fyrir næsta keppnistímabil. Þar mun hápunkturinn vera Norðurlandamótið. Kannski munum við líka láta sjá okkur á einhvers staðar í gæðingakeppni. Þar að auki er ég með mörg kynbótahross sem stefnt er með í dóm næsta vor.

Heima við erum við að byggja nýtt hesthús fyrir 24 hross, reiðhöll og húsnæði til kennslu og annarra nota. Ég vonast til að þetta verði tilbúið fyrir jól“, segir Stian sem tók sér pásu frá heyskapnum þegar viðtalið var tekið.

/ Henning Drath, www.isibless.de