mánudagur, 22. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Snjallir gæðingar á Gaddstaðaflötum.

Jens Einarsson
3. ágúst 2010 kl. 13:30

Heljar og Klerkur fremstir í flokki

Gæðingar í A og B flokki á opnu Stórmóti Geysis um verslunarmannahelgina voru góðir. Heljar frá Hemlu og Klerkur frá Bjarnanesi voru með afgerandi forystu hvor í sínum flokki. Heljar alhliða gæðingur en Klerkur klárhestur með tölti.

Heljar frá Hemlu er ræktaður af Vigni Siggeirssyni, sem einnig var knapi á hestinum. Heljar er átta vetra og á framtíðina fyrir sér. Hann er undan Gný frá Stokkseyri, sem einnig er úr ræktun Vignis, undan hinni alhvítu Gullbrá frá Kvíarhóli og Andvara frá Ey. Móðir Heljars er Óskadís frá Hafnarfirði, sem er undan Viðari frá Viðvík og Helgu-Dís frá Vestri-Leirárgörðum. Undan Helgu-Dís er einnig gæðingurinn Manni frá Vestri-Leirárgörðum, sem var keppnishestur Karenar Líndal Marteinsdóttur um árabil.

Klerkur frá Bjarnanesi, sem er aðeins sjö vetra, er þegar kominn í hóp frægari klárhesta. Hann vakti fyrst athtygli fjögra vetra í opinni stóðhestakeppni á FM2007 á Iðavöllum. Framfótahreyfingar hans eru með því mesta sem gerist. Hann á ekki langt að sækja þær, undan Glampa frá Vatnsleysu og Snældu frá Bjarnanesi, sem eru með allra bragðmestu klárhrossum landsins. Klerkur er úr ræktun Olgeirs Ólafssonar, sjómanns, hrossaræktanda og smábónda á Móa í Hornafirði. Olgeir er ættaður frá Bjarnanesi og kennir hross sín við það fornfræga ræktunarnafn. Knapi á Klerki var Eyjólfur Þorsteinsson.

Gæðingakeppnin á Stórmóti Geysis gaf innsýn í það hvers hefði mátt vænta á Landsmóti 2010. Óhætt er að segja að ef gæðingar í öðrum landshlutum eru á svipuðu róli og þeir sem skyrptu úr hófum á Gaddstaðaflötum, þá hefði orðið gaman á Landsmóti á Vindheimamelum.

Öll úrslit mótsins má sjá á www.hestafrettir.is