sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Slakur árangur Íslendinga á NM2010

Jens Einarsson
10. ágúst 2010 kl. 10:12

Ekkert gull en reitingur af bronsi

Árangur Íslendinga á Norðurlandamótinu í hestaíþróttum hefur sjaldan eða aldrei verið lakari en á NM2010 í Finnlandi, sem haldið var í liðinni viku. Ekkert gull kom í hlut landans, eitt silfur í ungmennaflokki og reitingur af bronsi.

Enginn vafi er á að hrossapestin setti strik í reikninginn. Allir keppnishestar íslenska liðsins voru „útlendir“. Það er að segja, þeir knapar íslenska liðsins sem búsettir eru á Íslandi þurftu að fá lánaða hesta ytra, þar sem útflutningur hrossa frá Íslandi hefur legið niðri í sumar.

Þá forfölluðust tveir hestar íslenska liðsins, en þeir greindust með hita þegar þeir komu á mótsstað. Annar þeirra var hestur Jóhanns Skúlasonar, Höfði frá Snjallsteinshöfða, en honum hafði fyrirfram verið spáð sigri í fimmgangi. Jóhann er búsettur í Danmörku. Hinn hesturinn var hestur Freyju Amble, sem búsett er í Noregi.

Sigurður V. Matthíasson var drýgstur fullorðinna í íslenska liðinu. Hann náði bronsi í gæðingaskeiði á Vá frá Vestra-Fíflholti, fimmta sæti í 100 metra skeiði og sjöunda sætinu í fimmgangi. Þess má geta að Guðmundur Björgvinsson varð Íslandsmeistari á Vá í fyrsta flokki í fimmgangi í fyrra. Agnar Snorri Stefánsson, sem búsettur er í Danmörku, keppti fyrir Ísland á Gauki frá Kílhrauni. Hann hlaut brons í slaktaumatölti fullorðinna.

Valdimar Bergstað hélt uppi heiðri Íslendinga í ungmennaflokki, hlaut silfur í fimmgangi ungmenna á Vonarneista frá Lynghaga, varð fjórði í 250 metra skeiði og fjórði í slaktaumatölti. Sigurður Rúnar Pálsson hlaut fimmta sætið í fimmgangi ungmenna á Græði frá Dalbæ. Ásta Björnsdóttir á Hrafni frá Holtsmúla hafnaði í fimmta sæti í slaktaumatölti ungmenna.

Kristján Magnússon hlaut brons í 250 metra skeiði á Öldu frá Trengereid og Sigurður Vignir Matthíasson náði fimmta sætinu á Vá frá Vestra-Fíflholti. Sigurður var eini Íslendingurinn sem komst á blað í 100 metra skeiði, en þar náði hann fimmta sæti á Vá, eins og áður sagði.

Íslendingar komust ekki á blað í fjórgangi fullorðinnna, en Bergrún Ingólfsdóttir hafnaði í fimmta sæti í A úrslitum í fjórgangi ungmenna á Gelli frá Árbakka. Í tölti ungmenna náði Skúli Þór Jóhannsson bronsi á Þór frá Ketu. Hanna Rún Ingibergsdóttir hafnaði í sjötta sæti á Lisu frá Jakobsgården.

Íslendingar hlutu brons í tölti fullorðinna en því náði Denni Hauksson á Venusi frá Hockbo. Denni og Venus voru í fyrsta sæti eftir forkeppni og má segja að það hafi verið hápunkturinn í árangri Íslendinga á NM í Finnlandi.