þriðjudagur, 21. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skrautfjöður úr hatti Kirkjubæjarbúsins

Jens Einarsson
15. desember 2010 kl. 13:15

Nýi eigandinn safnar topphrossum

Kirkjubæjarbúið hefur tekið skrautfjöður úr hatti sínum og selt til Svíþjóðar. Það er hryssan Fjóla frá Kirkjubæ, sem var ein af skærustu stjörnum LM2008 á Hellu. Hún er undan Hróðri frá Refsstöðum og Flugu frá Kirkjubæ. Fjóla er með hæst dæmdu klárhryssum, með 8,51 í aðaleinkunn. Þar af 9,0 fyrir framhluta, samræmi, stökk, fegurð, vilja, hægt tölt og fet. Hún er með 9,5 fyrir brokk, tölt og hægt stökk. Nýir eigendur Fjólu eru Agneta Wingstrand (70%) og Haraldur Snjólfsson (30%) í Svíþjóð.

Agneta keypti einnig á þessu ári stóðhestinn Braga frá Kópavogi, sem er stjarna sem klárhestur og töltari. Agneta þessi hefur keypt fleiri góð hross undanfarin misseri, fyrstu verðlauna hryssur og vel ættuð hross ósýnd. Miklar getgátur eru uppi um verðið sem greitt var fyrir Fjólu. Talið er víst að það hafi verið sambærilegt við verð á bestu stóðhestum. Kirkjubæjarbúið er þó ekki alveg lens þótt Fjóla sé farin, því hún skildi eftir sig eina dóttur. Sú er rauðstjörnótt, veturgömul, undan Eldjárni frá Tjaldhólum.