miðvikudagur, 24. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ræktunarmenn ársins

Jens Einarsson
22. október 2009 kl. 12:48

Mikil gróska í hrossaræktinni

Mikil gróska hefur verið í hrossaræktinni hér á landi undanfarinn áratug. Nokkur bú eru búin að festa sig rækilega í sessi og hafa verið tilnefnd árum saman. Má þar nefna búin Auðsholtshjáleigu, Fet, Ketilsstaði á Völlum, Árbæ, Flugumýri II, Efri-Rauðalæk, sem öll eru tilnefnd í ár.

En nýjum og öflugum hrossaræktarbúum hefur fjölgað verulega síðastliðinn áratug. Og eins og fram hefur komið hér H&H þá voru hvorki fleiri né færri en fimmtíu og fjögur bú í því forvali sem Guðlaugur Antonsson, hrossaræktarráðunautur taldi ástæðu til að skoða með tilliti til verðlaunanna “Ræktunarmaður ársin”. Í ljósi þessa hefur tilnefningum til verðlaunanna verið fjölgað og að þessu sinni eru sautján bú tilnefnd. Þar á meðal eru nokkur sem eru að koma ný inn á kortið. H&H kannaði hvað stendur á bak við tilnefningu þeirra búa sem eru að koma ný inn og eru tilnefnd.

Austurkot í Flóa er ungt hrossaræktarbú sem nú er tilnefnt. Þar eru ræktendur Páll Bragi Hólmarsson og Hugrún Jóhannsdóttir. Fjögur bráðefnileg og góð trippi hlutu fullnaðardóm á árinu. Þrjú náðu fyrstu verðlaunum. Meðaltal aðaleinkunna 8,01.

Vignir Siggeirsson og fjölskylda á Hemlu 2 á Rangárvöllum er einnig að gera sig gildandi í ræktuninni. Hryssuhópurinn á búinu er skemmtileg blanda af gömlum hrossaættum, sem ekki heyra endilega til tískuhrossa í dag. Til dæmis úr Hornafirði og af Austurlandi. Og ekki má gleyma albínóanum Gullbrá frá Kvíarhóli, — af Kolkuóssætt. Fjögur trippi komu til dóms, fimm og sex vetra. Meðaltal aðaleinkunna 8,18.

Helgi Eggertsson og Helga Pálsdóttir á Kjarri í Ölfusi er ekki nýliðar í hrossarækt, en koma nú inn með öflugan hóp hrossa, fimm til átta vetra. Þar á meðal undan Stála frá Kjarri, Jónínu frá Hala, Nunnu frá Bræðratungu og Þrumu frá Selfossi. Átta hross frá búinu hlutu fullnaðardóm. Meðaltal aðaleinkunna 8,01.

Vilberg Jónsson á Kommu í Eyjafirði er tilnefndur með fjögur fulldæmd afkvæmi, fjögra til átta vetra. Þar af eru tvö undan Kjarnorku frá Kommu, sem nú er fallin. Undan henni er hinn frægi Kappi frá Kommu. Meðaltal aðaleinkunna Kommu-hrossa er 8,15.

Kvistir í Holta- og Landssveit skrá sig hressilega á blað á þessu ári. Gerðu það reyndar einnig í fyrra með fífilbleiku stjörnuna Óm frá Kvistum. Að þessu sinni eru níu hross frá búinu sem hljóta fullnaðardóm, fjögra til sjö vetra. Langefstur er Oliver frá Kvistum, hálfbróðir Óms, með 8,67 í aðaleinkunn. Meðaltal aðaleinkunna Kvista-hrossa er 8,09.

Steinnes í Húnaþingi er þekkt hrossaræktarbú og er núna að skrá sig í hóp þeirra bestu með stóðhestinn og vekringinn Kiljan frá Steinnesi fremstan í flokki. Ræktunarhópur frá búinu var valinn sá besti á FM2009 á Kaldármelum. Í fullnaðardóm á árinu komu fjórtán hross. Meðaltal aðaleinkunna er 7,97 ef öll eru talin með sem kennd eru við bæinn. Engar skýringar hafa enn verið gefnar út með tilnefningunum og ræktendur eru nokkrir. Ekki er hægt að fullyrða hér hvaða hross eru tekin með. Meðaltal aðaleinkunna gæti því verið hærra í útreikningum fagráðs.

Lára Kristín Gísladóttir og Kolbeinn Magnússon á Stóra-Ási eru með unga hrossarækt sem virðist vera komin til að vera. Hross frá búinu hafa gert það gott undanfarin ár. Stjarnan í hópi þeirra hrossa sem sýnd voru í fullnaðardómi á árinu, sem eru fjögra til átta vetra, er Sónata frá Stóra-Ási, sem stóð efst fimm vetra hryssna á FM2009. Meðaltal aðaleinkunna Stóra-Áss hrossa er 8,04.

Feðgarnir Þormar Andrésson og Elvar Þormarsson, sem kenna hross sín við Strandarhjáleigu, eru komnir með mjög öflugan hryssustofn. Þeir koma nú sterkir inn í myndina með nokkur úrvalshross. Þar er efst á blaði hestagullið Bylgja frá Strandarhjáleigu með 8,58 í aðaleinkunn. Skuggi frá Strandarhjáleigu er einnig með mjög glæsilegan dóm, 8,49. Alls hlutu fimm hross frá búinu fullnaðardóm. Meðaltal aðaleinkunna er hátt, 8,25! Glæsilegur árangur.

Ræktunarbúið Torfunes í Þingeyjarsýslu er gróið nafn í hrossaræktinni en hefur síðastliðinn ár lagt aukinn þunga í starfsemina. Stofnað hefur verið fyrirtæki um hrossaræktina og í Torfunesi er risin glæsileg hestamiðstöð. Hross frá búinu voru áberandi á árinu. Hæst ver þar sigur Máttar frá Torfunesi í A flokki gæðinga á FM2009 á Kaldármelum. Sex hross frá búinu, fjögra til átta vetra, hlutu fullnaðardóm á árinu. Meðaltal aðaleinkunna er 8,15.

Að lokum er það svo Þjóðólfshagi 1, þar sem Sigurður Sigurðarson er aðalmaður. Hann kemur afar sterkur inn í ræktunina. Frá búinu voru sýnd átta hross í fullnaðardómi, einn stóðhestur og sjö hryssur. Fimm hlutu fyrstu verðlaun. Meðaltal aðaleinkunna 8,11. Öll hrossin eru fimm vetra, úr fyrsta árgangi ræktunarinnar, sem telur tíu hross. Þetta er frábær árangur og gæti hæglega dugað til að blanda Sigurði í báráttuna um toppsætið.