laugardagur, 20. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reiðmennskan angar af uppgjöf

Jens Einarsson
18. febrúar 2010 kl. 11:12

Stangir með tunguboga að verða staðalbúnaður

Reiðmenn á íslenskum hestum anga af uppgjöf. Þeir hafa gefist upp við að laða fram eftirgjöf og léttleika með réttri þjálfun, réttri upphitun, réttu hugarfari. Langflestir knapar í Meistaradeild VÍS riðu fjórgangskeppnina við stangir og múl. Allir nema tveir ef mig minnir rétt. Margir riðu við stangamél sem ég hef kallað „verkfæri dauðans“. Einjárnungs stangir með tunguboga. Skammstafað VD.

Í útlöndum eru mél af þessari gerð af mörgum kölluð „none contact bit“. Það er að segja: Mél án taumsambands. Oftast notuð í erlendri reiðmennsku þegar riðið er með annarri hendi og snúningar og beygjur riðnar með því að víkja hestinum með hliðarhvatningum frá fæti og taum á háls. Hesturinn er nánast alltaf beinn. Groddatæki eftir sem áður.

Rétt er að endurtaka útskýringar: Tungan er næmasta líffæri hestsins. Hörð og ósanngjörn taumhendi fyrirgerir því næma taumsambandi sem góður reiðmaður getur á hinn bóginn laðað fram með réttri tamningu og þjálfun. Taumsambandi sem byggir á sanngirni og trausti. Með tunguboganum komast knapar fram hjá þessari næmu samskiptamiðstöð, sem þeir hafa hugsanlega áður fyrirgert.

Engin liðamót eru á VD. Átak á aðra stöngina virkar á báðar. Og setur þar með fullt átak á keðjuna. Sem er ósanngjarnt og erfitt fyrir hestinn þegar riðinn er baugur eða um horn. Hesturinn er krafinn um ýktan höfuð- og fótaburð sem er sérlega erfiður þegar hesturinn er sveigður. Á hefðbundnum íslenskum stöngum er nánast hægt að fría keðjuna þegar riðið er um horn (ef hún er slök) með því að gefa ytri tauminn alveg eftir. Ytri stöngin vísar þá beint niður en innri stöngin er lárétt. Átakið á innri taum er þá nánast eins og á hringamélum.

Viðbrögð hestsins við VD eru afar ánægjuleg í fyrstu, hann gefur eftir og knapanum tekst að koma hestinum í höfuðburð og form sem honum tókst ekki með góðu móti áður. Frábært! Frábær mél! En þetta er eins og að pissa í skóinn sinn. Vegna tungubogans lenda ytri hlutar mélsins, beggja megin, neðar í munn hestsins og átakið kemur meira á góminn, svæði sem er næmt ef það er óskemmt. Með tímanum særist hins vegar gómurinn og dofnar og hesturinn leggst á móti átakinu. Alveg eins og gegn ósanngjörnu átaki á tungu.

Einn „plús“ í viðbót! Reiðmaðurinn getur með VD uppi í hestinum togað fastar og lengur í taumana án þess að hesturinn firrist við og dragi tunguna yfir mélin. Og þannig haldið hestinum í formi, sem hann hefur ekki náttúrulega eiginleika eða þjálfun til að vera í. En fyrr en seinna kólnar hesturinn og segir nei. Eða guggnar. Glögg dæmi sá ég um það í fyrra. Knaparnir á þeim hestum reyna sennilega að telja sjálfum sér og öðrum trú um að ástæðan hafi verið einhver önnur. En ég er næstum alveg viss. Burt með VD.

Jens Einarsson, ritstjóri.