sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ræktunarbússýningar á Vindheimamelum

27. júní 2010 kl. 14:22

Ræktunarbússýningar á Vindheimamelum

Hrossarækt á Sumarsælu í Skagafirði

Þau bú sem þegar hafa tilkynnt þátttöku í sýningu ræktunarbúa á Vindheimamelum á Hrossaræktardeginum 3. júlí eru eftirfarandi:

Dýrfinnustaðir, Skagafirði
Á Dýrfinnustöðum er stunduð umfangsmikil hrossarækt undir stjórn Ingólfs Helgasonar. Meðal þeirra hrossa sem kynnt verða á sýningunni eru nokkrir gráir gæðingar sem eiga ættir sínar að rekja til Steðja í Borgarfirði og hér um að ræða afurð úr ræktunarsamstarfi Ingólfs og Guðmundar Hermannssonar fyrrum bónda á Fjalli í Skagafirði.

Íbishóll, Skagafirði
Frá Íbishóli verða sýndir gæðingar úr heimsmeistararæktun Magnúsar Braga Magnússonar. Meðal þess sem Magnús býður upp á er frumsýning á stóðhestinum Óskasteini sem margir hafa heyrt talað um en færri séð.

Miðsitja, Skagafirði
Frá Miðsitju verða kynntir fjórir rauðir gæðingar. Á síðustu árum hefur Magnús Andrésson stundað hrossarækt á hinu fornfræga hrossaræktarbýli Miðsitju. Meðal þeirra hrossa sem sýnd verða í ræktunarbússýningunni er stóðhesturinn Blær sem fór í fyrstu verðlaun nú í vor.

Syðri-Vellir, V-Hún.
Á Syðri-Völlum í Vestur-Húnavatnssýslu stundar fjölskylda Reynis Aðalsteinssonar hrossarækt. Fjölskyldan á Syðri-Völlum mun mæta með flokk góðra hrossa á Vindheimamela. Meðal hrossa í sýningunni má nefna stóðhestinn Sikil sem hefur látið að sér kveða bæði á keppnisvellinum og kynbótabrautinni.

Nýjustu upplýsingar verða veittar inn á www.horse.is og þar er einnig að finna upplýsingar um opna daga á hrossaræktarbúunum Hjaltastöðum, Miðsitju, Syðra-Skörðugili, Vatnsleysu og Ytra-Skörðugili.

Skráning í ræktunarbússýningar og stóðhestakynningu er enn opinn – áhugasamir hafi samband við Eyþór Einarsson 862-6627.