mánudagur, 18. febrúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ósætti um dómaramál

Óðinn Örn Jóhannsson
29. júní 2018 kl. 12:27

Gæðingadómarar

"Óeðlileg afskipti af skipan yfirdómara"

Eiðfaxa barst í tölvupósti yfirlýsing frá Ólafi Árnasyni gæðingadómara um að hann hyggist ekki þiggja dómarastörf á komandi Landsmóti vegna óeðlilegra afskipta af skipan yfirdómara á mótinu. 

Vanalega gefur stjórn gæðingadómarafélagsins (GDLH) út lista yfir dómara á stórmótum sem fer fyrir Dómaranefnd Landssambands hestamannafélaga. Dómaranefndin fer þá yfir hæfni þeirra dómara sem á listanum eru og fram að þessu hefur staðfest tillögu stjórnar gæðingadómarafélagsins. 

Nú kom hins vegar beiðni frá framkvæmdanefnd Landsmóts í Reykjavík um að Sigurður Ævarsson yrði yfirdómari mótsins en í framkvæmdanefndinni sitja  Áshildur Bragadóttir, Guðrún Valdimarsdóttir, Haukur Baldvinsson, Hjörtur Bergstað, Hrólfur Jónsson, Katrín Pétursdóttir, Sigurbjörn Bárðarson en formaður hennar er Sigurbjörn Magnússon. Telja aðilar innan raða gæðingadómara þetta vera óeðlileg afskipti nefndarinnar að skipan dómara.

Sigurður Ævarsson var ekki á lista GDLH yfir dómara á mótinu en samkvæmt heimildum blaðamanns var það vegna áminningar sem Sigurður hlaut frá aganefnd LH.

Vegna þessa máls hefur myndast talsvert ósætti innan raða gæðingadómara sem meðal annars var til þess að Ólafur Árnason sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

 

 Yfirlýsing vegna dómaramála á Landsmóti 2018

Ágætu félagar.

Ferlið í kringum úthlutun dómara á Landsmót 2018 hefur verið lærdómsríkt í mínum

huga. Þar tel ég hafa verið tekist málefnalega á innan stjórnar GDLH um skipun dómara og

áhersla lögð á að finna sterkustu liðsheildina byggða á þáttum eins og reynslu við dómstörf,

tengingum við keppendur og hæfileikann til að starfi í teymi. Margir hæfir dómarar sóttu um

og lagði stjórnin sig fram við að finna sterkustu heildina til að dæma þetta mikilvæga mót.

Hefð hefur verið fyrir því að stjórn GDLH hefur lagt lista fyrir dómaranefnd LH með

nöfnum þeirra dómara sem stjórnin telur mynda sterkasta teymið á þeirri stundu. Sá listi

hefur einnig innihaldið tillögur stjórnar um yfirdómara og eftirlitsdómara á Landsmóti.

Ekkert fordæmi virðist vera fyrir því að stjórn LH eða LM fari að skipta sér af því vali, enda

óumdeilanlegt að stjórn GDLH er mun hæfari til að skipa dómara, yfirdómara og

eftirlitsdómara heldur en stjórnir LH og LM.

Það kemur fram í lögum LH, að framkvæmdanefnd LM hafi rétt til að starfi í samráði

við dómaranefnd við val á yfirdómara. Það val ber hinsvegar að byggja á dómaralista sem

samþykktur er af dómaranefnd LH, og eins og áður segir, í samráði við hana.

Það kom því stjórn GDLH á óvart þegar stjórn LM fór að leggja hart að stjórninni að

velja ákveðinn einstakling í stöðu yfirdómara og barst stjórninni bréf varðandi það áður en

dómaralistinn hafði verið birtur. Er stjórn GDLH tilkynnti stjórn LM að faglega yrði valið í

stöðu yfirdómara og því ekki orðið við kröfum þeirra, þá barst stjórn GDLH bréf frá stjórn LH

þar sem óskað var eftir útskýringum á því hversvegna ekki hafi verið komið til móts við

stjórn LM við val á yfirdómara. Rétt er að taka fram að viðkomandi einstaklingur var ekki á

dómaralistanum sem lagður var fyrir dómaranefnd LH.

Eins og áður segir þá lagði stjórn GDLH dómaralistann fyrir dómaranefnd LH en á

þeim lista voru 14 einstaklingar en ekki sá einstaklingur sem stjórn LM krafðist að fá í starfið.

Dómaranefnd LH er að öllu jöfnu skipuð formanni LH, formanni GDLH og formanni HÍDÍ, en

að þessu sinni sáu fleiri stjórnarmenn LH sig knúna til að mæta á fundinn. Þar var lögð mikil

áhersla á að vísa einum aðila af áðurnefndum 14 manna lista, og koma þannig

yfirdómaraefni LM á listann. Rétt er að taka fram að yfirleitt er stjórn LH ekki að beita sér

svona og sem dæmi þá var stjórn HÍDÍ búin að birta dómaralistann sinn opinberlega áður en

fundurinn var haldinn.

Það er mikið undir á Landsmóti og því mikilvægt að allir dómarar, og sérstaklega

yfirdómari, séu hafnir yfir allan grun um óeðlileg vinnubrögð eða hagsmuni. Í mínum huga

finnst mér ferlið í kringum skipun yfirdómara á Landsmót 2018, alls ekki hafið yfir þann grun,

heldur frekar gera þá stöðu tortryggilega. Stjórn LM og vissir stjórnarmenn LH lögðu mikið á

sig til að koma sínum aðila í stöðu yfirdómara án þess að ræða það fyrst við stjórn GDLH.

Það hlýtur því að vekja upp spurningar hvaða hagsmunir liggja þarna á bakvið og hversvegna

stjórnir LH og LM beita sér af þessu afli til að fá ákveðinn einstakling í stöðu yfirdómara enda 

hvorug stjórn með faglega þekkingu til að meta hæfileika dómara til að dæma Landsmót eða

sinna starfi yfir- eða eftirlitsdómara.

Ég hef dæmt undanfarin Landsmót og mér var sýndur sá heiður að vera valinn í

dómarateymi Landsmóts 2018. En í ljósi þeirra starfshátta sem ég hef útlistað hér að ofan,

þá hef ég tekið þá ákvörðun að dæma ekki Landsmót 2018 þó ég hafi hafi haft mikinn áhuga

á því að gera það. Tel ég að áðurnefnd vinnubrögð stjórna LM og LH dragi úr trúverðugleika

á faglegu vali dómarateymisins auk þess sem ég ber ekki traust til þess yfirdómara sem

valinn var í starfið af stjórn LM enda ekki faglega staðið að því vali.

Virðingarfyllst

Ólafur Árnason

Gæðingadómari og stjórnarmaður í Gæðingadómarfélaginu