mánudagur, 22. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr hringvöllur á Grænhóli

8. október 2009 kl. 08:57

Aðstaða í sérflokki

Nýr hringvöllur hefur verið tekinn í gagnið á Grænhóli í Ölfusi hjá þeim Gunnari Arnarsyni og Kristbjörgu Eyvindsdóttur. Segja má að aðstaða til tamninga og þjálfunar á búinu sé í sérflokki, en fyrir er nýbyggð reiðhöll og hesthús. Og ekki má gleyma að í Ölfusi er frábært reiðvegakerfi.

Fundu frábært efni í eigin landareign

Gunnar segir að hringvöllurinn sé fyrst og fremst hugsaður sem þjálfunarvöllur fyrir búið. Hann sé hins vegar byggður eftir reglugerð LH um stærð og lögun. Mjög sé vandað til hans, bæði hvað varðar undirbyggingu og yfirlag.

„Við erum svo heppin að hér í landareigninni er alveg einstakt efni í yfirlag á svona völl, nánast tilbúið frá náttúrunnar hendi. Ég gerði tilraunir með efnið á vegarkafla í sumar og haust og það virðist henta mjög vel. Með því að draga þunnt lag af skeljasandi í yfirlagið í restina næst yfirborð sem er passlega fjaðrandi og laust; hestvænt, en er jafnframt veðurþolið. Vikurvellirnir, þótt ágætir séu, geta orðið býsna harðir þannig að það er varla stætt á að þjálfa á þeim til lengri tíma. En með þessari uppskrift teljum við að hér sé kominn alveg kjörinn þjálfunarvöllur,“ segir Gunnar.

Í lokin má geta þess að það var Guðni Jónsson sem teiknaði völlinn en verktakafyrirtækið Nesey sá um framkvæmdina.