miðvikudagur, 24. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nærri öruggt að Landsmóti 2010 verði frestað

28. maí 2010 kl. 18:35

Vilji til að halda Landsmótið að ári í Skagafirði

Yfirgnæfandi líkur eru á að Landsmót hestamanna 2010 verði blásið af og því frestað til 2011 vegna hrossapestarinnar nú geisar. Vilji er fyrir því að mótið verði haldið að ári í Skagafirði.

Á formannafundi Landssambands hestamannafélaga sem haldinn var í dag vegna hestapestarinnar var breið samstaða um að hafa velferð hrossanna í fyrirrúmi og láta þau njóta alls vafa. Þeir formenn og aðrir fulltrúar á fundinum sem H&H hafði samband við telja yfir 90% líkur á að frestun Landsmóts 2010 verði tilkynnt formlega eftir fund hagsmunaaðila sem haldinn verður á mánudaginn.

Ljóst er að niðurfelling Landsmóts er mikið áfall fyrir greinina í heild. Margir hafa lagt mikið undir og munu bera fjárhagslegan og tilfinningalegan skaða af. Flestir fundarmenn voru þó sammála um að betra væri að taka ábyrga afstöðu nú, bæði með tilliti til velferðar hrossanna, og ímynd hestamennskunnar og Landsmóts til framtíðar.

Á fundinum fór fram skipulega vinna í hópum þar sem menn báru saman bækur sínar um stöðu pestarinnar á landsvísu. Á eftir gafst mönnum færi á að spyrja dýralæknana Gunnar Örn Guðmundsson og Vilhjálm Svansson spurninga og þóttu svör þeirra mjög greinargóð. Sú umræða gaf fundarmönnum góða yfirsýn yfir stöðu mála og þjappaði það fundarmönnum saman. Töluverð umræða varð um núverandi ástand sjúkdómavarna og viðbragðsáætlana við óþekktum sjúkdómum og faröldrum. Fundurinn samþykkti tvær tillögur sem er svohljóðandi:

1) Ályktun til Matvælastofnunnar

Formannafundur LH haldinn 28.maí 2010 skorar á Matvælastofnun að hún láti rannsaka með hvaða hætti sjúkdómur sá sem herjar á íslenska hrossastofninn barst til landsins. Þá krefst fundurinn þess að stofnunin leiti þegar allra leiða til að koma í veg fyrir að aðrir sjúkdómar berist hingað. Telur fundurinn að núverandi framkvæmd sjúkdómavarna sé verulega ábótavant.

2)Formannafundur LH haldinn 28.maí 2010 hvetur stjórnir Landssambands hestamannafélaga, Bændasamtaka Íslands og Landsmóts hestamanna ehf. að hafa eftirfarandi þætti að leiðarljósi við ákvarðanatöku um hvort halda eigi Landsmót hestamanna á Vindheimamelum 2010 í ljósi þess sjúkdóms sem nú herjar á íslenska hrossastofninn:

- Velferð hestsins

- Ímynd hestamennskunnar og Landsmóts til framtíðar.

Sjá má fundargerð LH frá formannafundinum HÉR.