miðvikudagur, 24. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Miðasala Landsmóts 2010 fer vel af stað-

12. mars 2010 kl. 11:07

Miðasala Landsmóts 2010 fer vel af stað-

Forsala aðgöngumiða á Landsmót sem og sala í stúkusæti og hjólhýsastæði með aðgengi að rafmagni hófst 25. febrúar sl.  Að sögn starfsmanna Landsmóts 2010 fer salan mjög vel af stað og ljóst að margir eru að nýta sér þau afsláttarkjör sem bjóðast þegar miðar eru keyptir í forsölu fyrir 1. maí.

Auk forsöluafsláttar er aðildarfélögum Landssambands hestamannafélaga og Bændasamtaka Íslands boðin 25% afsláttur af almennu miðaverði.  Smíðaður hefur verið öflugur gagnagrunnur og netmiðasölukerfi  sem auðveldar mikið allt utanumhald og þurfa LH/BÍ félagar að slá inn kennitölu sína til að fá afsláttinn.

Þess má til gamans geta að þegar félagatal LH og BÍ voru samkeyrð voru 1.530 félagar í bæði hestamannafélagi og Bændasamtökunum!  Samtals eru þá um 14.500 einstaklingar á skrá í LH/BÍ gagnagrunni Landsmóts.

Í hinu nýja miðasölukerfi verður nú einnig hægt í fyrsta skipti að sjá nákvæmlega þann fjölda erlendra gesta sem koma á Landsmót og greina þá eftir þjóðerni.

Um 60% þeirra sem keypt hafa miða eru Íslendingar og má leiða að því líkum að það sem rekur landann áfram sé að festa sér hjólhýsastæði með aðgengi að rafmagni en um 300 stæði eru í boði á Vindheimamelum.  Þegar er búið að selja hátt í 1/3 af stæðunum á þessum fyrstu dögum miðasölunnar og fer stúkusalan einnig vel af stað.

Er það von mótshaldara að þetta nýja fyrirkomulag með að bjóða LH og BÍ félögum vildarkjör mælist vel fyrir hjá hestamönnum og öllum bændum um land allt!