föstudagur, 19. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mette vill hætta við Landsmót hestamanna

25. maí 2010 kl. 15:34

Mörgum spurningum ósvarað varðandi hrossapestina

Mette Mannseth, reiðkennari á Hólaskóla og hrossabóndi á Þúfum í Skagafirði, er á þeirri skoðun að hætta beri við Landsmót. Hún segir að meðgöngutími pestarinnar sé það langur að augljóst sé, miðað við þær upplýsingar sem liggi fyrir um útbreiðslu hennar, að stór hluti þeirra hrossa sem stefnt sé með í sýningu verði ennþá með veikina á meðan úrtökur fari fram.

Hrossabúið á Þúfum var með þeim fyrstu til að fá pestina. Smituð hross komu á tamningastöðina í lok febrúar og fyrstu hrossin byrjuðu að hósta um miðjan mars og veikin komin flest hrossin um miðjan apríl. Pestin var greind í hesthúsi á Hólum um svipað leyti. Mette segir að það sé mjög erfitt að átta sig á ferli pestarinnar í hrossunum, en meðgöngutíminn sé greinilega mun lengri en í fyrstu var talið. Einnig sé erfitt að átta sig á hvenær óhætt sé að byrja að þjálfa eftir veikina og hvenær megi byrja að leggja að hrossunum að einhverju marki. Mörgum spurningum sé í rauninni ósvarað.

Tvær vikur á feti

„Það sem við höfum lært af okkar reynslu er að hvíld er eina lækningin við þessari pest. Við byrjuðum að þjálfa nokkur hross of snemma, vegna þess að enginn vissi í raun og veru hvað var í gangi. Þeim hrossum sló niður og þau urðu sum töluvert veik. Flest hrossin á stöðinni hjá okkur eru komin í brúkun núna, en við þjálfum þau mjög gætilega, mest á feti, hægu tölti og brokki, og gætum þess að þau mæðist ekki mikið. Við teymum þau í hendi á feti tíu til fimmtán mínútur á dag fyrstu vikuna eftir hvíld, og ríðum eingöngu á feti þá næstu. Við erum nokkuð vongóð um að geta sýnt mörg þeirra um miðjan júní, en auðvitað er maður ekki alveg viss um hvað gerist þegar farið verður að leggja meira að þeim.

En ef ferlið í pestinni verðu svipað og hjá okkur á þeim tamningastöðvum sem fengu pestina einum eða jafnvel tveimur mánuðum seinna, þá get ég ekki séð að það sé raunhæft að ætla að þau hross verði búin að jafna sig og komin í þjálfun í júní. Þess vegna finnst mér það réttasti kosturinn að hætta við Landsmótið, bæði gagnvart hrossunum, og eins þeim mörgu sem fyrirsjáanlega verða með veik hross fram eftir sumri,“ segir Mette Mannseth.