mánudagur, 22. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Með yngri dómurum Íslands -

10. júní 2010 kl. 11:20

Með yngri dómurum Íslands -

Í maímánuði fór fram nýdómaranámskeið sem gaf réttindi sem héraðsdómari hestaíþrótta. Námskeiðið átti að vera í tengslum við Reykjavíkurmeistaramótið sem fyrirhugað var að halda um miðjan maí. En vegna kvefpestarinnar í hrossastofninum varð ekkert af mótinu en dómaranámskeiðið var samt sem áður haldið.
Rúna Helgadóttir var ein þeirra sem sat námskeiðið og tók prófið. Rúna er Reykjavíkurmær og hefur stundað hestamennsku og keppni síðan hún var krakki.

Hvernig var námskeiðið?

„Ég kom inn í fullan sal af fullorðnu fólki og mér fannst ég dálítið utangátta til að byrja með, langyngst. En það breyttist fljótt. Kennararnir voru Gylfi Geirsson, Pjetur N. Pjetursson, Þórir Örn Grétarsson og Berglind Sveinsdóttir. Fyrst fórum við í allar reglurnar, svo dæmdum við eftir myndbandi. Síðan var gerð dauðaleit að hrossum til að ríða fyrir okkur en það gekk ekki vel. Við náðum þó að dæma aðeins úti og tókum allt upp, horfðum á það og fórum yfir hvað væri rétt og rangt og svo dembdum við okkur í prófið. Prófið var í þremur hlutum; munnlegt, reglur og að dæma eftir myndbandi.“
Eiðfaxi hafði samband við þá Pjetur, Gylfa og Þórir Örn sem sögðu einum rómi að Rúna hafi staðið sig glimrandi vel á prófinu.

En hvenær fór hún að hafa áhuga á dómstörfum?
„Ætli ég hafi ekki verið 12 eða 13 ára þegar ég var á keppnisnámskeið hjá Tomma og Þóru í reiðskólanum Faxabóli. Námskeiðið var mjög skemmtilegt og sniðugt, við kepptum í lokin og dæmdum sjálf. Það var í fyrsta skipti sem ég dæmdi og mér fannst það mjög skemmtilegt. Þarna kviknaði áhugi minn fyrir því að gerast dómari. Nokkrum árum seinna tók mamma [Arna Rúnarsdóttir] dómarapróf og ég var mjög oft ritari hjá henni og við pældum mikið í dómstörfunum og einkunnagjöfinni og ég lærði mikið af því. Oft hef ég líka setið heilu mótin, t.d. Líflandsmótið og Kvennatöltið í Gusti, horft á og dæmt, bara til að æfa sjálfa mig. “

En það er lítið að gera í dómarabransanum um þessar mundir?
„Já, það er mjög svekkjandi að geta ekki dæmt. Vonandi næ ég samt að dæma eitthvað seinna í sumar.“

Hvað með þína hestamennsku í sumar?
„Ég er nýbúin að fá nýjan hest og planið var að komast inn á landsmót í ungmennaflokk. En það verður að bíða. Ég á líka tvö ár eftir í ungmennaflokki, svo það er allt í lagi. Í vetur hef ég þjálfað nokkra hesta með skólanum og langaði að fara með einn þeirra í B-flokk fyrir Sóta. En ég vona að ég geti kannski spreytt mig á þeim seinna í sumar. Svo verður maður bara að velja og hafna, á hvaða mótum maður vill keppa og hvaða mót maður vill dæma,“ segir hinn nýbakaði íþróttadómari að lokum.