föstudagur, 19. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lítil þátttaka í kynbótasýningum

1. júní 2010 kl. 10:51

Sunnlenskir funda á miðvikudag

Nú þegar ákveðið hefur verið að fresta Landsmóti hestamanna 2010 situr eftir sú spurning hvort halda eigi öðru sýningahaldi áfram óbreyttu. Fagráð í hrossarækt hefur boðað hrossaræktendur og knapa á Suður- og Suðvesturlandi til fundar um fyrirkomulag kynbótasýninga næstu vikurnar. Fundurinn verður haldinn í félagsheimili Sleipnis á Selfossi miðvikudaginn 2. Júní klukkan 20.00.

Síst bjartsýnni en áður

Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda og fagráðs í hrossarækt, segir að ákveðið hafi verið að hafa samráð við hrossaræktendur og knapa um málið.

„Þessi pest í hrossunum virðist óútreiknanleg og það er ljóst að við verðum að stíga næstu skref mjög varlega. Við viljum þó gera það í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta. Fá fram skoðanir ræktenda og knapa á hver staðan er og hvað þeir telja rétt að gera. Hvað mig varðar þá er ég síst bjartsýnni en áður. Ég var að sækja stóðhest sem ég ætlaði að nota í sumar. Hann virtist alheilbrigður þegar ég sótti hann, en hann hóstaði þegar ég tók hann af kerrunni. Það er þó ekki langt á milli bæja, um fimmtán mínútna akstur. Þannig að það er ljóst að það er mjög erfitt að átta sig á hvaða hross er í lagi og hvaða hross ekki,“ segir Kristinn.

Kynbótadómarar eru til taks

Guðlaugur Antonsson, hrossaræktarráðunautur, segir að mjög lítil þátttaka sé í auglýstum kynbótasýningum. Ekkert hross sé skráð á sýningu á Blönduósi í júní, eitt hross á sýningu í Hornafirði og tólf hross á sýningu á Austurlandi. Upphaflega hafi verið skráð 460 hross á sýningu á Gaddstaðaflötum, sem átti að byrja í gær en var frestað, en nú hafi þeim fækkað í 260 og líkur á enn meiri afskráningum.

„Við höfum ekki viljað aflýsa sýningum, en ákveða framhald þeirra í samráði við þá sem hlut eiga að máli. Flestir sem eiga skráð hrossa á Gaddstaðaflötum vilja sýna þau í síðustu viku sýningarinnar. Norðlendingar hafa lýst áhuga á að halda kynbótasýningar í Landsmótsvikunni, um mánaðamót júní og júlí. Þannig að það virðist vera almennur vilji fyrir því að seinka sýningum. Hvort Sunnlendingar vilja halda þær í júlí kemur væntanlega í ljós á fundinum hjá Sleipni á miðvikudagskvöldið. En við erum til taks og munum reyna að koma til móts við fólk eftir föngum,“ segir Guðaugur.