sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Líf eftir Landsmót

Jens Einarsson
3. maí 2010 kl. 11:43

Útlendingar í hrossaleit

Landsmót hestamanna er stærsta hestamótið í Íslandshestamennskunni í FEIF löndunum. Mun stærra en heimsmeistaramót. Áhorfendafjöldi á heimsmeistaramótum er þó alltaf að aukast og slagar upp í Landsmótin, en fjöldi hrossa á Landsmótum er mun meiri.

Fjöldi útlendinga kemur á Landsmót hverju sinni. Tvö til þrjú þúsund að talið er. Hefur þó aldrei verið mældur nákvæmlega. Margir nýta ferðina til að kaupa sér hross, bæði dýr hross sem jafnvel eru í keppni og sýningum á Landsmóti, og ódýrari eða ótamin hross sem til sölu eru víðs vegar um landið.

Landsmótin eru öðrum þræði markaðstorg. Fyrir hross og varning, reiðtygi og mynjagripi. Á fyrri Landsmótum voru gerðar tilraunir til að halda sölusýningar. Þær tókust ágætlega, en þóttu ekki viðeigandi þegar fram í sótti. Þær færðust heim á bæjina og í hesthúsahverfin fyrir og eftir mótið. Útlendingar hafa aðlagað sig að þessu og bætt við ferðadögum.

Með tilkomu reiðhalla víðsvegar um land hefur skapast fín aðstaða til sölusýninga. Nú þegar er byrjað að auglýsa sölusýningar í reiðhöllum í tengslum við Landsmótið, meðal annars í Ölfushöllinni í vikunni á eftir. Skagfirðingar munu einnig nýta sér slagkraftinn og halda sölusýningar, bæði heima á bæjum og í þeim reiðhöllum sem fyrir hendi eru í héraðinu. Það má því búast við líflegri hrossaverslun víða um land í vikunni eftir Landsmót 2010 í Skagafirði.