föstudagur, 19. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LH úrskurðar Þórð í eins árs bann

Jens Einarsson
7. október 2009 kl. 10:14

Fagráð í hrossarækt tvístígandi

Aganefnd Landssambands hestamannafélaga hefur dæmt Þórð Þorgeirsson, tamningamann og knapa, í eins árs keppnisbann frá og með 3. ágúst 2009. Bannið nær yfir keppni og sýningar í löndum FEIF, þar með taldar kynbótasýningar. Tvískipting hestamennskunnar hér á landi, í kynbótageira og íþróttageira, gæti þó gert bannið næsta léttvægt fyrir Þórð.

Braut áfengisbann

Á HM09 í Sviss varð Þórður uppvís að því að neyta áfengis, en við því er strangt bann í íslenska landsliðinu í hestaíþróttum, hvort sem er utan eða innan vallar. Hann viðurkenndi brot sitt og baðst opinberlega afsökunar. Aganefnd LH lítur brotið hins vegar mjög ströngum augum. Telur hæfilega refsingu 24 mánuði en mildar hana niður í 12 mánuði vegna afsökunarbeiðninnar. Á www.hestafrettir.is kemur fram að Ragnar Tómasson, lögmaður Þórðar, telur sjálfgert að málinu verði vísað til dómstóls ÍSÍ. Öll meðferð og úrvinnsla málsins hafi verið þannig að ástæða sé til að efast um að dómur aganefndar LH verði staðfestur þar.

Strangur dómur

Kristinn Guðnason, formaður fagráðs í hrossarækt, segist lítið vilja láta hafa eftir sér að svo stöddu. Sér finnist dómurinn strangur, en tekur fram að hann þekki þó ekki málsatvik. Bændasamtök Íslands séu aðili að FEIF hvað hrossaræktina varðar og ljóst að fagráðið verði að taka málið til skoðunar. Það komi væntanlega til umræðu á fagráðsfundi næsta þriðjudag.

Guðlaugur Antonsson, hrossaræktarráðunautur, segir að vissulega veki þessi dómur upp spurningar. Gæðinga- og íþróttakeppnin sé fyrst og fremst frítímaíþrótt en kynbótasýningar og hrossarækt atvinnugrein. Það sé því töluvert vald sem LH taki sér með því að útiloka Þórð frá sinni vinnu í heilt ár. Hann sagðist ekki vilja taka neina afstöðu fyrr en eftir fund fagráðs á þriðjudag. Fagráðið sé æðsta vald í hrossaræktinni.

Ekki stætt á að skipta hestaíþróttinni í hluta

Haraldur Þórarinsson, formaður LH, segir það einungis jákvætt ef dómnum verið áfríað. Nauðsynlegt sé að fá úr því skorið hvar íþróttafólk í hestamennsku standi gagnvart lögum og reglum. „Í mínum huga er það hins vegar kristaltært að gæðingakeppni, íþróttakeppni og kynbótasýningar eru eitt og það sama þegar að þessu kemur. Það sjá það allir í hendi sér að það væri í hæsta máta ankannalegt ef knapi sem verður uppvís að agabroti í gæðingakeppni á Landsmóti, og er vikið úr keppni, geti á næstu mínútu hoppað á bak kynbótahrossi á sama móti og tekið við verðlaunum þar.“