sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Leiguverð á hesthúsplássi svipað og í fyrra

Jens Einarsson
6. október 2009 kl. 11:11

Spænir einn stærsti kostnaðarliðurinn

Búist er við að leiguverð á hesthúsplássum verði svipað í vetur og síðastliðinn vetur. Þeir sem auglýst hafa pláss til leigu telja lítið svigrúm til hækkana, jafnvel þótt spænir muni hækka í verði. Reiknað er með að heyverð haldist óbreytt. Í hesthúsum með safnstíur eru spænir einn stærsti kostnaðarliðurinn.

Leiguverðið er breytilegt eftir staðsetningu og ástandi hesthúsanna. Í nýju hesthúsi í Hafnarfirði kostar pláss í tveggja hesta stíu með heyi og spæni 20 – 30 þúsund krónur á mánuði. Miðað er við að leigjandinn taki þátt í hirðingu. Í nýju húsi í Heimsenda kostar plássið fyrir hestinn 13 þúsund krónur á mánuði fyrir utan hey og spæni. Miðað er við þátttöku í hirðingu. Á Fákssvæðinu kostaði hesthúspláss í fyrra með fóðri og hirðingu 20 -32 þúsund krónur á mánuði. Samkvæmt skrifstofu Fáks er búist við að verðið í vetur verði á svipuðu róli. Það skýrist þó betur þegar fyrstu spónagámarnir koma til landsins. Ennþá er ekki vitað hvað þeir munu kosta.

Engar algildar reglur eru þó til í þessu sambandi og hægt er að detta niður á mjög hagstæða leigu ef heppnin er með. Í Mosfellsbæ er auglýst gott átta hesta hús til leigu á 400 þúsund krónur fyrir veturinn, í sex til átta mánuði. Það gerir rúmar sex til sjö þúsund krónur á mánuði fyrir hestinn. Ekkert annað er innifalið í leigunni, leigjandinn sér sjálfur um öll aðföng, hey og spæni, og greiðir rafmagn og hitaveitu.