sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Leggja niður móta- og sýningarhald út maímánuð -

6. maí 2010 kl. 11:21

Leggja niður móta- og sýningarhald út maímánuð -

Það er greinilegt að ekki eru allir dýralæknar sammála um það hvernig bregðast skuli við því ástandi sem hefur myndast hér á landi í kjölfar þess mjög svo smitandi sjúkdóms sem  hefur stungið sér niður í hrossunum og hefur  verið kallaður "Smitandi hósti".

Eiðfaxi hafði samband við Björn Steinbjörnsson sérgreinadýralækni hjá Matvælastofnun, sem sagði að þessi sjúkdómur væri bráðsmitandi og haldið væri að hann orsakaðist af svokölluðum REO vírus.

„Vandamálið er það að meðgöngutíminn frá því að hesturinn smitast og þangað til hann veikist, er mikill óvissuþáttur. Hann getur verið frá einhverjum klukkustundum og upp í tvær vikur. Það þýðir að þegar hestur er orðinn sýktur, getur hann virkað heilbrigður á þessum meðgöngutíma. Þegar hestur hefur sýkst geta liðið 2 vikur þar til einkenna fer að gæta. Á þessum meðgöngutíma er hesturinn einkennalaus en er orðinn smitberi, þ.e. hann smitar út frá sér þó engin einkenni sjáist á honum. 

Séu margir hestar i húsi sýktir, þá getur smitþéttnin orðið mjög mikil. Húsið er orðið nokkurs konar vírusverksmiðja og smitefnið getur borist í gegnum loftræstingu í nærliggjandi hús. Þannig breiðist sýkingin frá húsi til húss.

Ástæða þess að sjúkdómurinn er að breiðast svona hratt út er sú, að fólk er að fara með hrossin á milli húsa, á sýningar og mót, vegna þess að fólk telur sig vera með heilbrigðan hest í höndunum."

Horfir í óefni
„Ástandið er orðið mjög slæmt nú þegar en horfir í enn meira óefni ef við gerum ekki eitthvað til að hefta útbreiðsluna nú þegar. Ein leiðin til þess væri að gefa út að fella verði niður allar sýningar og mót út maímánuð. Síðan verður fólk að passa sig að vera ekki mikið á ferðinni milli hesthúsa. Það er ástæða til að vara fólk við því að fara með hross inn í reiðhallir, þar getur leynst smit.

Besta ráðið sem ég get gefið hestamönnum, sérstaklega þeim sem eru með kynbótahross eða önnur hross sem til dæmis er stefnt með á landsmót, er að hvíla þau í þrjár vikur. Síðan myndi ég mælast til þess að dýralæknar hefji bólusetningar á hrossum með efni sem styrkir ónæmiskerfið, þ.e. sama efni og þau hross sem við sendum út á heimsmeistaramót eru bólusett með.“

Björn er ómyrkur í máli sínu og vill augljóslega að við tökum harðar og af meiri alvöru á þessum vágesti sem skekur allt móta- og sýningarhald nú, svo ekki sé talað um hefðbundið hestahald okkar. Við fylgjumst sem fyrr með framvindu þessa máls, því vissulega viljum við umfram allt að hrossin okkar nái bata og séu heilbrigð.