sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lausir hestar í Seláshverfi

5. janúar 2010 kl. 16:39

Lausir hestar í Seláshverfi

Þeir voru ansi ánægðir með sig, fákarnir sem heimsóttu Seláshverfið í blíðunni í dag. Þeir höfðu sluppið úr gerði við Faxaból í Víðidal og ákveðið að skokka um nærliggjandi hverfi sér til heilsubótar og íbúum til ánægju og yndisauka. Það leið þó ekki langur tími þangað til Jón Finnur Hansson framkvæmdastjóri Fáks var kominn á vettvang, náði að handsama einn hestinn og leiða stóðið á rétta leið niður í Víðdal á ný. Lögreglan var kvödd á vettvang en þurfti ekki að skerast í leikinn eða hjálpa til.

Þrjár átta ára stúlkur sáu hrossin á ferð sinni um hverfið og blaðamaður Eiðfaxa tók þær tali. Þetta voru þær Petra Sólný Elmarsdóttir, Elín Arna Tryggvadóttir og Maríanna Sól Hauksdóttir.

Hvenær fréttuð þið fyrst af hestunum?
Við vorum í Skógarásnum og Elín Arna var að tala við mömmu sína í símann og hún sagði okkur frá hestunum. Hún var í Vesturási og sagði að þeir væru á leiðinni í Skógarásinn. Þá fórum við að kíkja út um gluggann og sáum þá koma hlaupandi. Við fórum út og fylgdumst með þeim. Ein konan í blokkinni reyndi að nálgast þá og gaf þeim brauð. Hún hringdi líka í lögguna. Við eltum þá og sáum þá að það voru komnir menn til að reyna að smala þeim aftur niður í Víðidal og löggan var komin líka.

Voruð þið hissa að sjá hestana inni í hverfinu?
Já! Höfum aldrei séð hesta hér áður. En Maríanna Sól er í hestunum og þekkir hesta mjög vel.

Eiðfaxi kvaddi þessar hressu stelpur og þakkar þeim fyrir spjallið.