föstudagur, 19. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landsmót hestamanna í Reykjavík 2012 - opið bréf frá Létti

12. mars 2010 kl. 15:41

Landsmót hestamanna í Reykjavík 2012 - opið bréf frá Létti

Stjórn LH hefur tekið þá ákvörðun, eftir lýðræðislega atkvæðagreiðslu innan stjórnar LH, að landsmót hestamanna árið 2012 verði haldið í Reykjavík. Hefur sú ákvörðun vakið upp miklar deilur meðal hestamanna og óvægin skrif hafa birst á spjallsíðum hestamanna. Ljóst er að mikill fjöldi þeirra sem hafa tjáð hug sinn, hafa ekki kynnt sér þær leikreglur sem eftir er farið við slíka ákvörðun og einnig hefur ályktun sú sem barst frá þingi Bændasamtakanna ýtt enn frekar undir þann hita sem í málinu er.

Samkvæmt lögum LH ber stjórn sambandsins að taka þessa ákvörðun og engir aðrir hafa komið þar að. Í lögum LH stendur beinlínis að m.a. skuli farið eftir félagslegu réttlæti. Það þýðir að öll þau félög innan LH sem telja sig geta haldið jafn viðamikið mót eins og landsmót er, geti sótt um að halda landsmót. Ef aðildarfélög innan LH telja hinsvegar að þessi félagslegu réttindi skuli afnumin og landsmótum afmarkaður ákveðinn staður, er ársþing LH rétti vettvangur til þess, en ef farið verður af stað í slíka vegferð skyldi endirinn skoðaður, því þar með væri stoðum Landssambands hestamannafélaga kippt undan sambandinu.

Bændasamtök Íslands hafa aldrei komið að vali á landsmótsstað, þau hafa aldrei viljað taka fjárhagslega ábyrgð ásamt LH á landsmótum þó eftir því hafi verið leitað. Því er sú ályktun sem þing B.Í sendi frá sér um staðarval algjörlega óskiljanleg og í engu samræmi við stefnu B.Í. Tillaga stjórnar Félags hrossabænda sem lögð var fram á þinginu er einungis ættuð frá stjórn félagsins og þar sem það er málsvari hrossabænda um allt land má ætla að ekki hafi verið einhugur meðal hrossabænda um þessa málsmeðferð stjórnarinnar. Virðist þessi ályktun hafa farið í gegnum þing B.Í. án gagnrýnnar umræðu og án þess að þingfulltrúar hafi kynnt sér málavexti til hlýtar.

Hestamannafélagið Fákur á 90 ára afmæli á árinu 2012. Er því vel við hæfi að stærsta og öflugasta hestamannafélagi landsins sé sýndur sá virðingarvottur að fela þeim framkvæmd þessa móts á afmælisári. Hefur Reykjavíkurborg einnig stutt þeirra umsókn með ráðum og dáðum, lofað fullum stuðningi við þetta mótahald og erum við þess fullviss að þetta mót verði haldið af fullum myndarskap og glæsileika.

Stjórn Hestamannafélagsins Léttis á Akureyri lýsir yfir fullum stuðningi við stjórn LH varðandi þetta staðarval. Með þeirri hugdirfsku að horfa til félagslegs réttlætis en ekki á þrönga einokunarhagsmuni, treystum við því að í framtíðinni sitji önnur hestamannafélög, sem óska eftir því að fá að halda Landsmót hestamanna á sínu mótssvæði, að njóta jafnræðis og réttlætis á við önnur landsmótssvæði.

Akureyri 11.03.2010

Stjórn Hestamannafélagsins Léttis, Andrea Þorvaldsdóttir, Jónas Kristjánsson, Inga Bára Ragnarsdóttir, Sveinn Ingi  Kjartansson, Baldvin Ari Guðlaugsson.