föstudagur, 19. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landsliðið klárt

Jens Einarsson
23. júlí 2009 kl. 01:17

Heimsmeistaramót íslenska hestsins

Nítján knapar skipa landslið Íslands í hestaíþróttum fyrir HM2009 í Sviss. Þar af eru fjórir heimsmeistarar frá HM2007 sem eiga keppnisrétt sem slíkir. Fimmgangshestar eru áberandi  í liðinu og ef vel gengur gætu íslenskir knapar orðið fleiri en  einn og fleiri en tveir í úrslitum.

Til marks um það þá voru þau Rúna Einarsdóttir og Haukur Tryggvason í fyrsta og öðru sæti í fimmgangi á þýska meistaramótinu í sumar. Fjórgangurinn er veikari en töltið allgott með fyrrum heimsmeistara Jóhann Skúlason og Hvin í broddi fylkingar. Skeiðhesturinn Lótus frá Aldenghohljóp á 21,46 sekúndum á þýska meistaramótinu. Skeiðhryssan Ester frá Hólum hefur hins vegar ekki verið nógu örugg á keppnistímabilinu. Hörður frá Eskiholti er góður slaktaumatöltari. Sigurður Sigurðarson gæti hæglega blandað sér í toppbaráttuna á honum.

Liðið er þannig skipað:

Íþróttaknapar Jóhann Skúlason, núverandi heimsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum, keppir á Hvini frá Holtsmúla. Bergþór Eggertsson, núverandi heimsmeistari í 250m skeiði og fljúgandi skeiði 100m, keppir á Lótusi frá Aldenghoor. Þórarinn Eymundsson, núverandi heimsmeistari í fimmgangi og samanlögðum fimmgangsgreinum, keppir á Krafti frá Bringu. Sigursteinn Sumarliðason, núverandi heimsmeistari í gæðingaskeiði, keppir á skeiðhryssunni Ester frá Hólum. Snorri Dal keppir á Oddi frá Hvolsvelli. Daníel Jónsson keppir á Tóni frá Ólafsbergi. Þorvaldur Árni Þorvaldsson keppir á Mola frá Vindási. Sigurður Sigurðarson keppir á Herði frá Eskiholti. Erlingur Ingvarsson keppir á Mætti frá Torfunesi. Haukur Tryggvason keppir á Baltasar from Freyelhof. Rúna Einarsdóttir-Zingsheim keppir Frey vom Nordsternhof. Linda Rún Pétursdóttir keppir á Erni frá Arnarsstöðum. Valdimar Bergstað keppir á Orion frá Lækjarbotnum. Teitur Árnason keppir á Glað frá Brattholti.

Kynbótaknapar Tryggvi Björnsson sýnir Grástein frá Brekku í kynbótadómi í flokki 7v og eldri stóðhesta. Þórður Þorgeirsson sýnir Kjarna frá Auðsholtshjáleigu í kynbótadómi í flokki 6v. stóðhesta. Guðmundur Björgvinsson sýnir Sæfara frá Hákoti í kynbótadómi í flokki 5v. stóðhesta. Gunnar Hafdal sýnir Þrumu frá Glæsibæ 2 í kynbótadómi í flokki 7v og eldri hryssna. Jóhann Skúlason sýnir Gerplu frá Blesastöðum 1a í kynbótadómi í flokki 6v hryssna. Erlingur Erlingsson sýnir Stakkavík frá Feti í kynbótadómi í flokki 5v hryssna.

Landsliðseinvaldi til að aðstoðar eru þeir Anton Páll Níelsson og Sigurður Vignir Matthíasson. Dýralæknir íslenska landsliðsins er Susanne Braun.