miðvikudagur, 24. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Komast ekkert á hestbak -

12. maí 2010 kl. 16:35

Komast ekkert á hestbak -

Heiðrún Ósk Eymundsdóttir og Pétur Örn Sveinsson eru útskrifaðir tamningamenn frá Háskólanum á Hólum og stunda tamningar og þjálfun í Saurbæ í Skagafirði. Heiðrún og Pétur eru með um 25 hross inni, mest kynbótahross sem stefnt er með í dóm.
 
Eiðfaxi: Hver er staðan á hrossunum í Saurbæ?
 
Heiðrún Ósk: Hér er allt í biðstöðu eins og svo víða. Öll hrossin sýna einhver einkenni pestarinnar, mismikið þó, en eru ekki mjög veik.  Þetta er önnur vikan sem þau eru lasin og eru með hor og sum eru að hósta. Hrossin sem eru elst og sterkust og í mesta forminu virðast taka þessu léttar. Svo þetta fer mjög misjafnlega í hrossin. Núna reynum við bara að hafa hrossin mikið úti, enda er ofsalega gott veður í dag og búið að vera síðustu daga.
 
Eiðfaxi: Heiðrún Ósk segir að auðvitað sé stefnt með mörg hross í dóm en nú séu þau bara að bíða eftir að hrossin verði heilbrigð og þá verði að taka stöðuna aftur og plana ferðir á sýningar eftir því.
 
Eiðfaxi: Hvaða kynbótahross eru mest spennandi hjá ykkur?
 
Heiðrún Ósk: Við erum með  nokkrar góðar og  efnilegar hryssur eins og Gjálp frá Miðsitju, undan Gunnvöru og Aroni frá Strandarhöfði. Það er mjög góð alhliðahryssa sem Pétur er með og stefnir með í dóm. Svo er ég með efnilega  4 vetra Tígulsdóttur,  Æsu frá Stokkhólma. Æsa er mjög viljug og skemmtileg og á framtíðina fyrir sér. Pétur er síðan með Venus frá Sjávarborg, sem er alsystir Sprota frá Sjávarborg. Hún er með 9.5 fyrir skeið, 1.verðlauna hryssa. Pétur á hana með Jóni Geirmundssyni frænda sínum og hún fer í folaldseign hjá þeim í sumar. Ég hef aðeins fengið að leika mér á Venus í sumar og það er aldrei að vita hvað gert verður með hana í sumar ef hún heldur í vor. Sammæðra Venus er Toppsdóttir, Vordís, góð alhliða hryssa. Við stefnum á að koma henni í 1.verðlaun í sumar. Síðan erum við með tvær góðar hryssur frá Kristjáni á Hellulandi í Aðaldal. Önnur undan Þristi frá Feti og hin undan Andvara frá Ey.
 
Svo er það Hlynur frá Enni, undan SVeini-Hervari og Sendingu frá Enni. Hann er í eigu Haraldar og Eindísar í Enni. Hann er sammæðra Ösp frá Enni sem Þórdís Erla Gunnarsdóttir hefur verið að keppa á. Annar stóðhestur sem við erum með er Vígur frá Eikarbrekku, undan Dyn frá Hvammi og Festingu frá Kirkjubæ. Hann er glæsilegur 1.verðlauna stóðhestur og efni í góðan keppnishest.
 
Heiðrún Ósk: Við erum að reyna að nýta tímann í að járna og skipta faxi, taka til, girða og í ýmis önnur vorverk. Ef eitthvað hefur setið á hakanum, þá er góður tími til að fara í það núna. Annars var maður fyrst svolítið dofinn eftir að pestin reið yfir og það er auðvitað hundleiðinlegt að geta ekkert riðið út.
 
Eiðfaxi: Hver er stefnan í ár varðandi landsmót?
 
Heiðrún Ósk: Ég er með einn spennandi töltara sem mig langar að prófa í sumar. Það er geldingur sem heitir Spakur frá Dýrfinnustöðum og er undan Hágangi frá Narfastöðum og Söru frá Brennigerði. Hann er í eigu pabba. Annars eru þetta meira kynbótahross sem við erum með og það verður að koma í ljós hvor eitthvað af þeim fær farmiða á landsmót.
 
Eiðfaxi: Eru komin folöld í Saurbæ?
 
Heiðrún Ósk: Já það er eitt folald komið, það fæddist brúnstjörnótt hryssa fyrir viku síðan. Hún er undan Ljónslöpp frá Bringu (f. Gustur frá Hóli, m. Kolka frá Kolkuósi). Faðirinn er Vígur frá Eikarbrekku (f. Dynur frá Hvammi, m. Festing frá Kirkjubæ). Folaldið er fallegt, með góðan háls og er háfætt og fer um á tölti.
 
Hér fæðast um 10 folöld og þeir hestar sem við notuðum í fyrra voru Þeyr frá Prestbæ, Seiður frá Flugumýri, Álfur frá Selfossi og fleiri. Ég á sjálf eina meri, Perlu frá Stóru-Gröf syðri og í fyrra hélt ég henni undir Þey. Undan henni á ég meri (Sól, Rökkvadóttir) sem ég ætla að sýna og svo keppnishest sem heitir Þór frá Saurbæ. Hún hefur því reynst mér ágætlega í ræktuninni sem er skemmtilegt, því ég fékk hana þegar ég var krakki og keppti meira að segja aðeins á henni. Pabbi gaf mér hana þegar ég var 5 ára og hún var folald, við uxum saman og ég varð m.a. Íslandsmeistari í fimi í barnaflokki á henni.
 
Eiðfaxi: Heiðrún Ósk sigraði landsmót í tvígang í ungmennaflokki á Golu frá Yzta-Gerði sem er í eigu pabba hennar. Hvað er að frétta af henni?
 
Heiðrún Ósk: Gola var geld svo hún er í léttu trimmi núna, orðin 16 vetra. Það var bara gaman að halda svona gæðingi í formi ;) En henni verður haldið undir Kappa frá Kommu, þ.e. hún verður sædd. Undan henni og Rökkva frá Hárlaugsstöðum á ég 5v graðhest sem heitir Stormur. Við fáum tvö folöld undan honum í sumar. Hann er klárhestur, algjör orkubolti. Ég sé hann fyrir mér í keppnisbrautinni í framtíðinni.
 
Heiðrún Ósk hverfur aftur til sinna starfa og Eiðfaxi þakkar fyrir spjallið.