sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kobbi sparar Auðinn - Ný stjarna?-

9. febrúar 2010 kl. 12:29

Kobbi sparar Auðinn - Ný stjarna?-

Jakob Svavar Sigurðsson í Steinsholti , er tamningamaður, þjálfari og reiðkennari sem allir kannast við. Hann er einn af okkar fremstu keppnisknöpum, auk þess að sýna mörg glæsileg kynbótahross á ári hverju.

Jakob er einn af þeim 21 knapa sem taka þátt í Meistaradeild VÍS í vetur og er hann í liði Frumherja ásamt þeim Viðari Ingólfssyni og Ólafi Ásgeirssyni.

Í fyrstu keppni vetrarins sem var Smalinn, gekk Jakobi vel, hann varð fimmti á hestinum Blæ frá Akranesi. En næsta grein er á fimmtudaginn kemur, 11.febrúar og er það fjórgangur. Í fyrravetur var Jakob efstur eftir forkeppnina í fjórganginum á stóðhestinum mjúka og fima, Auð frá Lundum en í úrslitunum var það Sigurður Sigurðarson á Suðra frá Holtsmúla I sem náði því sæti af honum.

Eiðfaxi sló á þráðinn til Jakobs í morgun, sem vitanlega var á hestbaki og forvitnaðist um það, hvaða hesti hann myndi tefla fram í fjórganginn.

 

Jæja Jakob, mætirðu með Auð aftur í ár í fjórganginn?


„Nei, ég ætla að spara Auð í bili. Ég kem með Gogg frá Skáney. Við vorum með þennan hest í tamningu og þjálfun, svo ég vissi af honum og falaðist eftir því að fá hann lánaðan. Hann er geldingur á sjöunda vetur og nokkuð sterkur fjórgangari tel ég.“

Goggur er rauðblesóttur undan Sóloni frá Skáney (f. Spegill frá Sauðárkróki, m. Nútíð frá Skáney) og Glæðu frá Skáney (f. Elgur frá Hólum, m. Glóð frá Skáney). Þetta mun verða frumraun Goggs á keppnisvellinum.

 

Hvað með aðrar greinar?

„Ja, ég er í það minnsta búinn að velja hest í næstu grein, Slaktaumatöltið, sem verður þann 25.febrúar. Ég tefli fram Al frá Lundum II og það lítur allt saman mjög vel út, ég hef mikla trú á honum í það verkefni.“

Alur brúnnösóttur, fæddur 2004 og er sammæðra Auð frá Lundum II, undan Auðnu frá Höfða og Kolfinni frá Kjarnholtum I.

 

Hvert er þitt persónulega markmið í Meistaradeildinni í vetur?

„Ég ætla að gera mitt allra besta, spila vel úr þeim hestakosti sem ég hef. Það verður kannski ekki auðvelt, þar sem ég vil spara Auð frá Lundum II. En við sjáum til, aldrei að vita hvað maður hefur uppí erminni,“ segir Jakob að lokum og skiptir um gír. Hann spjallaði við Eiðfaxa kallinn, reið fet í rólegheitum á meðan en skipti án efa í næsta gír að samtalinu loknu.