miðvikudagur, 24. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Klappað og klárt á Kaldármelum

Jens Einarsson
25. júlí 2009 kl. 12:01

Fjórðungsmót Vesturlands var haldið á Kaldármelum í byrjun júlí. Að þessu sinni var hefðin brotin upp og Húnvetningum og Skagfirðingum boðin þátttaka. Sú breyting hafði greinileg jákvæð áhrif. Hestakosturinn var meiri og betri en áður, og áhorfendur hafa aldrei verið fleiri.

Bjarni Jónasson, framkvæmdastjóri mótsins, segir að um 2800 til 3000 manns hafi verið á mótssvæðinu þegar flest var. Þá eru taldir með keppendur, starfsfólk og börn yngri en tólf ára, sem fengu frítt inn. „Það er enginn vafi að útvíkkun mótsins gjörbreytti heildarmyndinni,“ segir Bjarni. „Hestakosturinn var fjölbreyttari og við fengum fleiri áhorfendur. Framkvæmdin tókst afskaplega vel, bæði hvað varðar keppnina og dansleikjahaldið. Við fengum engar kvartanir og lögregla og björgunarsveitarmenn höfðu það náðugt. Við vorum einstaklega heppin með veðrið, sem var milt og hlýtt. Það fylgist yfirleitt að, gott veður og gott mótshald. Við getum ekki verið annað en ánægð með útkomuna. Þetta gekk allt eins og í sögu,“ segir Bjarni Jónasson.

Nánar er fjallað um mótið á Kaldármelum í ítrarlegri úttekt í máli og myndum í mánaðarritinu Hestar og hestamenn sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á vefnum. Hægt að óska eftir lykilorði og áskrift á vefnum.