sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jón Páll úr leik í bili

Jens Einarsson
16. febrúar 2010 kl. 10:57

Brotin bein en stoltið ekki

Jón Páll Sveinson, tamningamaður í Hjarðartúni, varð fyrir því óhappi í janúar að brjóta viðbein og handarbein þegar hryssa sem hann reið á datt. Hann er því úr leik í bili. Hugsanlega fram í mars. Jón Páll varð því að sjá á eftir nokkrum gæðingsefnum sem voru komin vel á stað í tamningu og þjálfun.

Var að skeiðleggja

„Ég var að skeiðleggja hryssuna. Hún greip fram á sig þegar ég hægði hana niður og steyptist fram yfir sig. Slysin gera ekki boð á undan sér,“ segir Jón Páll. „Það var bót í máli að hryssan skeiðaði vel þar til hún datt, þannig að stoltið særðist ekki.“ Hann segist vonast til að verða jafngóður eftir tvær til fjórar vikur. Það sé þó vissulega svekkjandi að komast ekki á bak. Mörg efnileg trippi eru í hesthúsinu í Hjarðartúni. Eitt af þeim sem fór annað í þjálfun, alla vega tímabundið, er stóðhesturinn Fjarki frá Breiðholti. Hann er undan Þristi frá Feti og Hrund frá Torfunesi. Hann er því sammæðra hestagullinu Dögg frá Breiðholti sem Jón Páll sýndi á LM2006. Dögg er nú ræktunarhryssa í Hjarðartúni.