sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ingólfshvoll skiptir um eigendur

Axel Jón Fjeldsted
14. desember 2009 kl. 09:40

Gunnar Jóhannsson með lyklavöldin

Gunnar Jóhannsson, kaupsýslumaður, áður kenndur við Fóðurblönduna, hefur eignast Ingólfshvol í Ölfusi. Þar hefur verið rekin hestamiðstöð og reiðskóli í um áratug. Gunnar hyggst gera endurbætur á staðnum og setja hann síðan á sölu.

Á Ingólfshvoli er ein stærsta reiðhöll landsins, ráðstefnusalur og veitingahús, auk tveggja hesthúsa og íbúðarhúss. Land er um 50 hektarar. Staðurinn hefur lengst af verið í eigu Arnar Karlssonar, sem byggði staðinn upp. Við endurfjármögnun, eða öllu heldur endurkaup, á staðnum fyrir nokkrum árum leitaði Örn til Gunnars um samstarf. Rekstur staðarins hefur ekki skilað því sem áformað var og segir Gunnar að sú staða hafa verið komin upp að hann hafi ekki átt annarra kosta völ en leysa Ingólfshvol til sín. Það hafi þó alls ekki verið það sem hann hafi óskað.

Gunnar hefur leigt aðstöðuna á Ingólfshvoli til Guðmundar Björgvinssonar og Evu Dyröy, sem bæði eru tamninga- og hestamenn. Þau hafa búið og starfað í Kirkjubæ síðastliðin fimm ár. Þar munu þau reka tamningastöð, auk þess sem þau sjá um rekstur reiðhallarinnar og veitingaaðstöðunnar.

„Ég var heppinn að fá gott fólk með stuttum fyrirvara,“ segir Gunnar. „Þau munu alfarið sjá reksturinn og gera það eftir eigin höfði. Ég mun leggja fjármuni í að gera nauðsynlegar endurbætur á byggingum og setja eignina síðan á sölu. Ég hef ekki í hyggju að reka tvö hrossabú,“ segir Gunnar sem á hrossaræktarbúið Árbæ í Holta- og Landssveit.