mánudagur, 22. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrossin á Feti að hressast

Jens Einarsson
7. júní 2010 kl. 11:20

Níu hross frá búinu í kynbótadóm

Níu hross frá Feti á Rangárvöllum verða sýnd á kynbótasýninunni á Gaddstaðaflötum, sem hefst á morgun, áttunda júní. Fet var eitt af fyrstu búunum til að fá hrossapestina. Anton Níelsson, tamningamaður á Feti, segir að meðgöngutími pestarinnar sé að meðaltali átta vikur. Stundum minna, stundum meira.

Slepptum yngri hrossunum

„Við ætlum að sýna tólf hross á Gaddstaðaflötum, níu frá Feti og þrjú frá mér. Mér sýnist að öll reiðhrossin sem voru á húsi í vetur séu búin að ná sér. Við slepptum að vísu yngri hrossunum út fyrr í vor, þar með talið trippunum undan Vilmundi sem stóð til að sýna. En eldri hrossin virðast frísk og eru komin í þokkalega þjálfun aftur.“

Engin regla í pestinni

Anton segir að pestin hafi farið misjafnlega í hrossin og á ólíkan hátt. Sum hafi fengið mikið nefrennsli og hor, en lítinn hósta. Önnur aðallega hósta en lítið nefnrennsli.

„Það virðist engin regla vera í þessu. Eina reglan er að þetta gengur yfir öll hrossin, bæði úti og inni. Síðan veit maður náttúrulega ekkert um hvort pestin skaðar hrossin til lengri tíma; hvort einhverjar skemmdir eiga eftir að koma í ljós síðar. En eins og er þá eru hrossin í fullu fjöri,“ segir Anton.

Þess má geta að áttatíu og eitt hross er skráð á sýninguna á Gaddstaðaflötum, en í fyrra voru 511 hross skráð á sömu sýningu.