föstudagur, 19. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrossapestin lífseig

Jens Einarsson
22. júní 2010 kl. 11:35

Meðgöngutíminn þrír mánuðir og jafnvel lengri

Þótt hrossapestin sé í flestum tilfellum væg og fari ekki illa með hross, þá teygist meðgöngutími hennar á langinn. Reyndar svo mikið að mörgum þykir orðið nóg um. Enn berast fregnir af hrossum sem veiktust fyrst, í byrjun mars, en eru ekki orðin fullgóð ennþá. Virðist það einkum eiga við um hross sem voru í mikilli þjálfun þegar þau tóku pestina.

Sigurður Sigurðarson á Þjóðólfshaga segir að það hross sem tók pestina fyrst hjá honum, og búið hafi verið að útskrifa, hafi byrjað að hósta lítillega aftur fyrir viku síðan, eftir nokkra þjálfun. Svipaða sögu er að segja frá Hólum í Hjaltadal. Sum hrossin hafa byrjað að hósta aftur eftir nokkurra vikna þjálfun, eftir hvíld og eftir að menn töldu þau orðin góð.

Mjög misjafnt virðist hve þungt pestin leggst í hross, á milli staða og milli hópa, og hvaða einkenni þau fá. Þó er orðið ljóst að meðgöngutími veikinnar er í það minnsta þrír mánuðir. Jafnvel enn legri. Í sumum tilfellum styttri. Í mörgum tilfellum er erfitt að meta hvort hrossin eru búin að afgreiða pestina. Sérstakleg hross sem hafa verið á útigangi, en þau sýna mörg lítil eða engin einkenni. Ekki er fullreynt, hvort hluti hrossa fái aðeins vægari einkennin, glært nefrennsli og slappleika um tíma, en losni við grænan hor og hósta. Það kemur ekki í ljós fyrr en að áliðnu sumri.

Rétt er að taka fram að sérfræðingar álíta að hross smitist ekki aftur og aftur af veikinni eftir að þau eru búin að jafna sig. Í þeim tilfellum þar sem hross veikjast aftur sé frekar um að ræða að þau hafi einfaldlega ekki verið búin að ná fullum bata.