sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrossapestin ekki nýbúi

Jens Einarsson
4. júní 2010 kl. 11:20

Svipuð tilfelli komu upp í fyrravetur

Ekki er víst að hestapestin sem geisað hefur síðan í mars sé alveg ný af nálinni hér á landi. Hugsanlegt er að pestin hafi búið um sig í eitt eða tvö ár áður en hún braust út af krafti í vetur.

Dýralæknar ekki á tánum

Hestar og hestamenn hafa upplýsingar um hrossabú og tamningastöðvar, bæði á Suðurlandi og í Skagafirði, þar sem upp komu svipuð tilfelli í fyrravetur. Hross fengu nefrennsli og sum hósta. Einhver hita. Einnig veiktust öll hross á tamningastöð á Suðurlandi í janúar á þessu ári með sömu einkenni og í hestapestinni nú. Í öllum þeim tilfellum sem H&H hefur upplýsingar um voru veikindin afgreidd af dýralæknum sem „smá kvef“ eða „smá kverkaskítur“. Engin sýni voru tekin til rannsókna. Dýralæknar virðast því ekki hafa verið á tánum gagnvart óþekktum sjúkdómum og metið þessi tilfelli sem „eðlileg“.

Gríðarlegur samgangur

Samgangur hrossa á Íslandi hefur sennilega aldrei verið eins mikill og í vetur. Vetrarmótum og hestasamkomum af ýmsu tagi hefur fjölgað gífurlega með tilkomu reiðhalla víða um land. Til viðbótar við fyrri hestamót og ísmót, innan dyra og utan. Til viðbótar þessu eru nú hross víða af að landinu send í sundþjálfun á tvær hestasundstöðvar landsins, aðra í Reykjavík og hina í Ásahreppi, og síðan bættist þjálfunarstöðin á Hólaborg við í vetur. Vart þarf að nefna þann aragrúa tamningastöðva um allt land hvar hross koma og fara í stríðum straumum.

Ýmsir eru því að geta sér þess til að „paddan“ sem veldur hestapestinni sé búinn að lifa góðu lífi í hrossum hér á landi mánuðum og jafnvel árum saman. Hún hafi síðan endanlega náð sér á flug í vetur með „bættum samgöngum“ í hestamennskunni.