sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrímnir gengur aftur

22. mars 2010 kl. 15:57

Var keyptur á sölusýningu í Hrímnishöllinni

Dalur frá Háleggsstöðum heitir stórglæsilegur hestur sem sló í gegn á Stjörnutölti í Skautahöllinni á Akureyri um helgina. Reyndar svo glæsilegur að ýmsir höfðu á orði að engu líkara væri en Hrímnir frá Hrafnagili væri genginn aftur.

Dalur þessi er grár, 8 vetra, og er í eigu Barböru Wenzl frá Austurríki, sem sat hestinn á Stjörnutöltinu. Hún starfar við tamningar hjá Lilju Pálmadóttur á Hofi á Höfðaströnd. Barbara keypti hestinn á sölusýningu í Hrímnishöllinni á Varmalæk fyrir nokkrum misserum. Björn Sveinsson á Varmalæk, sem átti hinn mikla gæðing Hrímni frá Hrafnagili eins og frægt er, mun einnig hafa gefið folanum auga og séð að þar fór glæsilegt hestefni.

„Ég sá Dal fyrst í Laufskálarétt þegar hann var fjögra eða fimm vetra, þá ótaminn,“ segir Barbara. „Hann var mjög flottur og ég falaði hann. Hann var ekki til sölu þá. Ég var ekki lengi að ákveða mig þegar ég sá hann aftur á sölusýningunni. Ég keppti á honum á nokkrum mótum í fyrra og það gekk bara nokkuð vel miðað við fyrsta keppnistímabil. Hann er ofsalega mjúkur hestur og rúmur. Yfirleitt þægilega viljugur en getur þó orðið mjög heitur ef hann er þannig stemmdur. Þá er brokkið ekki alltaf öruggt. Geðslagið er frábært, traustur og vingjarnlegur hestur.“

Dalur er ekki undan ræktunarstjörnum og var ekki eftirsóttur fyrir þær sakir. Bakgrunnurinn er þó nokkuð þéttur þegar að er gáð. Faðir hans er Nökkvi frá Kjalarlandi (8,29) sem nú er í Danmörku. Ágætur hestur sem ekki komst þó í tísku hér á landi sem stóðhestur. Hann er undan Smára frá Skagaströnd og Skessu frá Hraukbæ, sem er undan hinum merka gæðingi Þorra frá Höskuldsstöðum, og Grímu frá Grímstungu. Móðirin er Prýði frá Kjalarlandi, sem er "non grada" í móðurætt, en undan Kanslara frá Efri-Rauðalæk, Prúðssyni frá Neðra-Ási.