miðvikudagur, 24. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestaumferð í Vatnajökulsþjóðgarði

16. september 2010 kl. 11:29

Hestaumferð í Vatnajökulsþjóðgarði

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur sent frá sér svör vegna þeirra athugasemda sem gerðar voru við verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs....

og umhverfisskýrslu sem henni fylgdi.
Í svörum stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs segir, vegna athugasemda LH  um umferð hesta og reiðleiða:

Hestaumferð á vegum og utan reiðleiða
Í 14. grein reglugerðar Vatnajökulsþjóðgarðs nr. 608/2008 segir svo um umferð á hestum: ,, Umferð hesta um þjóðgarðinn er heimil á skilgreindum eða merktum reiðleiðum.“  Umferð annars staðar telst því óheimil. Þó ber að geta þess, að umferð á hestum er leyfð á þeim vegum sem skilgreindir eru í kafla 9.3 enda sé ekki um aðra reiðleið að ræða, fylgt sé greinilegu yfirborði vegar, stikum eða slóð vélknúinna ökutækja þar sem því verður viðkomið. Gæta þarf ýtrustu varúðar á fjölfarnari vegum, einkum þar sem vegur er greiðfær og búast má við hraðri umferð ökutækja. Umferð hesta annars staðar en á skilgreindum og merktum reiðleiðum og vegum, er því óheimil.

Úrval reiðleiða og áningastaða
Ábendingar bárust um reiðleiðir sem æskilegt væri að kæmu til viðbótar þeim sem tilteknar voru í auglýstri tillögu að Stjórnunar- og verndaráætlun. Flestar þær leiðir sem nefndar voru eru vegir, í skilningi Stjórnunar- og verndaráætlunar, þ.e. leiðir sem opnar eru vélknúnum ökutækjum fyrir almennri umferð. Þar sem umferð hesta á vegum er leyfð, með fyrrgreindum skilmálum, eru þessar leiðir sjálfkrafa hluti af reiðleiðakerfi þjóðgarðsins. Stefnt er að því að fjölga í áföngum áningastöðum á skilgreindum reiðleiðum.

Hópferðir á hestum
Athugasemdir voru gerðar viðað hópferð væri bundin við eingöngu 20 hesta.
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs er bundin af skilgreiningu 4. greinar reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð, þar sem segir: ,, Hópferð á hestum er ferð þar sem fleiri en 20 hestar eru í för.“

Vonarskarð
Hestaumferð í gegnum Vonarskarð er óheimil.

Verulegar athugasemdir voru gerðar við takmarkanir á hestaumferð í Vatnajökulsþjóðgarði, ekki síst að til stæði að banna ríðandi umferð um Vonarskarð.
Ríðandi umferð fetar ekki framar í fótspor Bárðar um Bárðargötu í Vonarskarði, og ellefu alda saga Bárðargötu þar með yfirstrikuð, hér skal eingöngu gangandi umferð leyfð. Hér er stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs að gera mikil mistök og er þessum gjörningi mótmælt.  Undirritaður deilir þeirri skoðun með Jónasi Kristjánssyni ritsjóra um að besta leiðin til að varðveita gamlar reiðgötur og þjóðleiðir er hæfileg notkun þeirra, að öðrum kost er hætta á að þær hreinlega hverfi eða týnist.
Tvímæli eru tekin af um að ríðandi umferð sé leyfð á öllum vegum og slóðum  innan þjóðgarðsins, þar sem almenn umferð er á annað borð leyfð vélknúnum ökutækjum, auk skilgreindra reiðleiða. Nú er nefnt að hestaumferð sé leyfð á  skilgreindum vegum í kafla 9.3 í verndaráætlununni. Fylgt skuli greinilega yfirborði vegar, stikum eða slóð vélknúinna ökutækja, enda sé ekki um aðra reiðleið að ræða.
Í tillögum að verndaráætluninni, voru einungis þeir vegir sem skilgreindir voru í kafla 9.3.4. leyfðir hestaumferð. Það er erfitt að sætta sig við að hestaumferð sé sett í flokk með vélknúnum ökutækjum og megi helst ekki annars staðar vera en á akvegum.  Fagna ber þó því að stefnt skuli að fjölgun áningastaða við skilgreindar reiðleiðir.
Varðandi hópferðir á hestum innan þjóðgarðsins og að sérstakt leyfi þjóðgarðsvarðar þurfi fyrir stærri hópum en 20 hesta.
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skýlir sér á bak við  4. grein reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð.       Um það skal segja að aldrei var leitað álits, eða samráð haft við fulltrúa samtaka hestamanna við samningu reglugerðarinnar.

Halldór H. Halldórsson
Form. Ferða- og samgöngunefndar LH