föstudagur, 19. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestadagar í Reykjavík

17. mars 2010 kl. 09:49

Hestadagar í Reykjavík

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum rétt í þessu að Reykjavíkurborg yrði, einu sinni á ári, sérstakur vettvangur fyrir íslenska hestinn, undir yfirskriftinni Hestadagar í Reykjavík.  

Með Hestadögum í Reykjavík er stigið mikilvægt skref í kynningu á íslenska hestinum í vetrarbúningi. Að auki mun borgarbúum og gestum gefast einstakt tækifæri til að komast í nána snertingu við íslenska hestinn í borgarumhverfinu.  Í kjölfar fyrsta viðburðarins í marsmánuði 2011 verður um árvissan viðburð að ræða.

Hestadagar í Reykjavík munu glæða borgina nýju lífi innan borgarmarkanna þar sem hesturinn verður í aðalhlutverki og mun honum bregða fyrir á óvenjulegum stöðum á Hestadögum, s.s. í miðborginni, við verslunarmiðstöðvar og skóla borgarinnar, auk þátttöku í sýningum og keppnum á félagssvæði Fáks á Víðivöllum.

Marsmánuður varð meðal annars fyrir valinu af þeirri ástæðu að þá eru flest hross í húsi og þjálfun. Skólarnir í borginni eru starfandi á þessum tíma og því góður tími til að kynna hestinn fyrir nemendum. Síðast en ekki síst má geta þess að marsmánuður er utan hefðbundins ferðamannatíma og því hagsmunir fyrir ferðaþjónustuna að draga til sín ferðamenn í tengslum við íslenska hestinn.

Reykjavíkurborg vonast til að eiga gott samstarf við hagsmunaaðila í hestamennskunni sem sjái tækifæri í því að markaðssetja starfsemi sína í höfuðborginni með tilkomu Hestadaga í Reykjavík.