mánudagur, 22. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Herjólfur farinn að ganga

Axel Jón Fjeldsted
19. mars 2010 kl. 14:27

Stóðhestablað Hesta og hestamanna út í apríl

Stóðhestablað Hesta&Hestamanna kemur út í apríl. Í blaðinu verða eingöngu auglýstir stóðhestar sem eru í notkun á Íslandi. Í blaðinu verða einnig viðtöl og greinar um hrossarækt.

Nú gengur í hönd sá tími í vetrarþjálfuninni að börkurinn er að flysjast af trippunum og innihaldið að koma í ljós. Ýmis spennandi hestefni hafa rekið á fjörur ljósmyndara H&H undanfarna daga og vikur. Má þar nefna jarpa folann á meðfylgjandi mynd. Hann heitir Herjólfur frá Ragnheiðarstöðum og er undan Gígjari frá Auðsholtshjáleigu og Hendingu frá Úlfsstöðum (8,47), Jarlsdóttur frá Búðardal.  Hending er systir hinnar snjöllu Hátíðar frá Úlfsstöðum, sem fékk 10 fyrir tölt á LM2006 á Vindheimamelum. Þær eru undan Hörku frá Úlfsstöðum, Sörladóttur frá Sauðárkróki.

Herjólfur er á fjórða vetur og er vægilega taminn og þjálfaður af Erlingi Erlingssyni, sem gætir þess vel að varðveita kostina í trippunum og taka ekki of mikið út. Hann gægðist þó aðeins í pakkann fyrir myndatöku í Stóðhestablaðið og það fer ekkert á milli mála að Herjólfur er farinn að ganga. Og myndin talar sínu máli um fótaburðinn.

Rétt er að minna á að Stóðhestablað Hesta&Hestamanna er dreift í 9000 eintökum. Ennþá er hægt að koma að hestum í Stóðhestablaðið. Hringið í Georg eða Emil í síma: 569-6665 og 569-6660.