föstudagur, 19. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gott að vera laus við snjóinn

Jens Einarsson
22. desember 2009 kl. 11:44

Afkvæmi Vilmundar stóra verkefnið í vetur

Dalvíkingurinn Anton Páll Níelsson, fyrrum reiðkennari á Hólaskóla, flutti suður yfir heiðar í fyrra. Hann starfar nú sem yfirþjálfari á hrossaræktarbúinu Feti á Rangárvöllum og er að hefja sinn annan vetur þar.

Anton Páll segir að sér líki vel á Suðurlandi. Hestarnir og fólkið og sé jafngott og fyrir norðan, og til viðbótar sé gott að vera laus við snjóinn, sem oft er meira af en góðu hófi gegnir á Dalvík og í Svarfaðardal, þar sem Anton og Inga María Jónínudóttir kona hans eiga jörðina Syðra-Holt.

Stefna með afkvæmi Vilmundar á LM2010

„Mér líkar vel að starfa hér á Feti og við Inga María erum ekkert á förum héðan. Aðstaðan er prýðisgóð og það er óneitanlega léttara að ríða út á veturna þegar ekki er allt á kafi í snjó. Hrossin hér á Feti eru líka skemmtilegur efniviður að vinna með, eins og flestir þekkja. Þeirra aðall er gott tölt, vilji og fallegur frampartur. Þessir þættir eru meðal annars arfleifð frá þeim Kraflari frá Miðsitju og Ásaþór frá Feti, sem voru mikið notaðir hér.

Það er eindregið markmið að sýna Vilmund frá Feti til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi á LM2010. Það er djörf áætlun, vegna þess að það eru aðeins 20 afkvæmum úr að spila á tamningaraldri. Byrjunin lofar góðu, það er að segja þau afkvæmi sem fóru fyrir dóm í vor og sumar. Þjálfunin á afkvæmum Vilmundar er stóra verkefnið okkar í vetur,“ segir Anton Páll Níelsson.