mánudagur, 20. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góði hirðirinn styrkir fatlaða á hestbaki

Jens Einarsson
20. desember 2010 kl. 10:13

Verkefni á vegum Harðar í Mosfellsbæ

Hestamannafélagið Hörður í Mosfellsbæ hlaut 700 þúsund króna styrk frá Góða hirðinum til kaupa á tveimur hnökkum fyrir fatlaða. Góði hirðirinn, sem er góðgerðastarfssemi á vegum Sorpu og selur notaða hluti sem koma til urðunar en eiga sér ennþá líf, veitir styrki til góðra málefna á hverju ári. Á vef Harðar kemur fram að búið sé að panta hnakkana, en ennþá sé eftir að útvega hesta í verkefnið, en markmiðið er að þeir verði fjórir til fimm. Hugmyndin er að fá fyrirtæki og einstaklinga til að taka að sér uppihald á hestunum og verið er að leita að þeim fórnfúsu aðilum. En hvað sem því líður þá líta Harðarmenn svo á að verkefnið sé í höfn og það mun verða boðið upp á þjálfun fyrir fatlaða á hestbaki frá og með áramótum. Þess skal getið að þjálfun fatlaðra á hestbaki er ekki ný af nálinni hér á landi. Nokkrir aðilar hafa boðið upp á slíka þjálfun síðastliðna áratugi. Hnakkurinn á myndinni er hannaður fyrir fatlaða af Erlendi Sigurðssyni og Magnúsi Jónssyni.